Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Breytingar á reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum

Nú hafa breytingar á reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum nr. 814/2010 tekið gildi.

Aldurstakmörk sem kveða á um að börn þurfi að vera tíu ára til að fara ein í sund miðast nú við 1. júní árið sem börnin verða tíu ára. Er miðað við þessa dagsetningu þar sem þá hafa börnin lokið sundnámi í 4. bekk. Ákvæðið er að höfðu samráði við Félag íslenskra barnalækna og Íþróttafræðisetur Háskóla Íslands á Laugarvatni. Fyrir breytingarnar miðaðist 10 ára aldurstakmark barna til að fara ein í sund við afmælisdag barnanna. Umboðsmanni barna bárust ábendingar frá börnum sem fannst þetta ósanngjarn þar sem bekkjarfélagar máttu ekki fara saman í sund fyrr allir höfðu náð 10 ára aldri þó svo að allir hafi notið jafnmikillar sundkennslu. Þessu kom umboðsmaður barna á framfæri við umhverfisráðuneytið og benti á að þar sem ákvæði barnaverndarlaga um útivistartíma miðuðust við fæðingarár en ekki fæðingardag væri eðlilegt og í raun réttlátara fyrir börn að miða við einn ákveðinn dag, t.d. 1. júní, sem ætti þá við um allan árganginn. Umboðsmaður fagnar því þessari breytingu.

Samkvæmt breytingunum á reglugerðinni eru nú auknar kröfur gerðar til innra eftirlits með öryggi sundgesta. Rekstraraðila sundstaðar ber að gera skriflega áætlun um öryggi gesta sem feli í sér almennt áhættumat og áætlun um forvarnir.

Heimilt er við vissar aðstæður á sundstöðum sem eru með einfalda uppbyggingu að starfsmaður sinni laugarvörslu og afgreiðslu samtímis.Þetta gildir á ákveðnum tímum þar sem vakt og afgreiðsla eru í sama rými og yfirsýn úr rýminu er þannig að auðvelt er að fylgjast með gestum í laug um leið og afgreiðsla fer fram. Heimildarákvæði þetta gildir einungis fyrir laugar þar sem gestafjöldi í laug er að meðaltali undir 10 gestum á ársgrundvelli á þeim tíma dags sem um ræðir og skulu gestir upplýstir um þetta fyrirkomulag laugargæslunnar.

Þá er í reglugerðinni nýtt ákvæði um skyldu gesta til að hlýða fyrirmælum starfsmanna sundstaða og er laugarverði heimilt að vísa gesti úr laug telji vörðurinn það nauðsynlegt til að tryggja öryggi á sundstaðnum. Loks eru gerðar ítarlegri kröfur til hæfnisprófs sem starfsmenn sund- og baðstaða þurfa að ljúka

Sjá hér reglugerð nr. 773/2012 um breytingu á reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum.