Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Ábyrgð fjölmiðla gagnvart börnum og siðareglur blaðamanna - Bréf

Umboðsmaður barna sendi fyrir nokkru bréf til Blaðamannafélags Íslands þar sem hann minnir á þá ábyrgð sem fjölmiðlar bera gagnvart börnum og óskar eftir því að honum verði gefinn kostur á að kynna sér efni nýrra siðareglna sem nú eru í smíðum.

Bréf umboðsmanns er svohljóðandi:

Blaðamannafélag Íslands
b.t. Hjálmars Jónssonar
Síðumúla 23
108 Reykjavík

Reykjavík,  20. september 2012
UB: 1209/9.1.0

Efni: Siðareglur blaðamanna í endurskoðun

Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í nútímasamfélagi og skoðanir fólks mótast að miklu leyti af þeim. Margt vandað er að finna í umfjöllun fjölmiðla en umboðsmaður barna telur þó að í einhverjum tilfellum hugi fjölmiðlar ekki nægilega vel að vernd barna þegar fjallað er um þau í fjölmiðlum og berast umboðsmanni reglulega erindi þess efnis. Dæmi um erindi er þegar foreldrar tjá sig um börn sín í fjölmiðlum en opinská umfjöllun um viðkvæm málefni barna getur valdið þeim vanlíðan og haft slæm áhrif á sjálfsmynd þeirra. Er því mikilvægt að börn njóti sérstakrar verndar þar sem þau fá oft ekkert um það að segja hvort fjallað sé um persónuleg málefni þeirra á opinberum vettvangi eða ekki.

Umboðsmaður barna vill minna á að börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem þarf á sérstakri vernd að halda. Endurspeglast það m.a. í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar þar sem fram kemur að börnum skuli tryggð sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Í athugasemdum í greinargerð með ákvæðinu kemur fram að ákvæðið geti réttlætt undantekningar frá öðrum reglum mannréttindakafla stjórnarskrárinnar ef það þykir nauðsynlegt til verndar börnum. Á það m.a. við um tjáningarfrelsi. Þegar umfjöllun um börn er birt þarf ávallt að huga að þeirri sérstöðu sem börn njóta, bæði samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðlegum mannréttindasamningum. Mikilvægt er að fjölmiðlar geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem þeir bera gagnvart börnum og hagi störfum sínum samkvæmt því.

Í 17. gr. Barnasáttmálans er sérstaklega fjallað um mikilvægi fjölmiðla og ábyrgð þeirra gagnvart börnum. Samkvæmt c-lið 17. gr. sáttmálans skulu aðildarríkin stuðla að því að mótaðar verði viðeigandi reglur um vernd barna fyrir upplýsingum og efni sem skaðað geti velferð þeirra. Að hluta til er e-liður 17. gr. Barnasáttmálans uppfylltur með nýjum fjölmiðlalögum nr. 38/2011. Má í því sambandi m.a. nefna 28. gr., 38. gr. og 41. gr. laganna sem fjalla með einum eða öðrum hætti um vernd barna gegn efni í fjölmiðlum.

Þrátt fyrir ákvæði fjölmiðlalaga telur umboðsmaður barna að þörf sé á frekari reglum sem leggja þá skyldu á fjölmiðla að gæta sérstakrar varkárni þegar verið er að fjalla um börn og tryggja að umfjöllun sé ekki til þess fallin að hafa meiðandi eða niðurbrjótandi áhrif á börn. Umboðsmanni barna er kunnugt um að skipuð hafi verið nefnd á síðasta aðalfundi Blaðamannafélags Íslands sem falið var að endurskoða siðareglur félagsins. Í tilefni af þeirri endurskoðun vekur umboðsmaður barna athygli á þeim sjónarmiðum sem þegar hafa komið fram og að sérstaklega verði hugað að hagsmunum og vernd barna þegar kemur að fjölmiðlaumfjöllun. Umboðsmaður barna óskar eftir því að verða upplýstur um stöðu nýrra siðareglna og að honum verði gefinn kostur á að kynna sér efni þeirra. Að lokum vill umboðsmaður barna koma því á framfæri að ef vilji er fyrir hendi er hann reiðubúinn að hitta nefndina sem sér um endurskoðun siðareglnanna og ræða þessi mál.

Rétt er að taka fram að umboðsmaður barna starfar eftir lögum nr. 83/1994 um umboðsmann barna. Þar segir m.a. í 5. gr. að einstaklingum, félögum og samtökum einstaklinga er skylt að veita umboðsmanni barna allar upplýsingar sem að hans mati eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu.

Ef frekari upplýsinga er óskað er hægt að senda tölvupóst á netfangið ub@barn.is eða hringja í síma 552-8999.

Virðingarfyllst,
______________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna