Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Vitundarvakning um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum

Í síðustu viku var undirritaður samningur til þriggja ára um vitundarvakningu um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum.

Samningurinn er í samræmi við sáttmála Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og kynferðislegri misneytingu gegn börnum en Ísland hefur verið aðili að samningnum síðan í febrúar 2008. Fullgilding sáttmálans stendur nú yfir en hluti hans kveður á um að beina fræðslu um kynferðislegt ofbeldi að börnum og fólki sem á samskipti við börn í starfi sínu.

Að tillögu ríkisstjórnar samþykkti Alþingi 25 milljóna króna fjárveitingu til verkefnisins á þessu ári og í samningnum er gert ráð fyrir að verja 16 milljónum króna á ári næstu tvö árin til vitundarvakningarinnar með fyrirvara um samþykki Alþingis. Að því loknu verður árangur verkefnisins metinn og framhaldið ákveðið.

Þetta segir í frétt dags. 27. apríl 2012 á vef velferðarráðuneytisins. 

Umboðsmaður barna fagnar þessu framtaki og vonar að verkefnið beri góðan árangur og að því verði haldið áfram næstu árin.