Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Börn sem hælisleitendur

Vegna frétta um tvo 15 og 16 ára drengi sem komu til landsins án fylgdar sem hælisleitendur og voru dæmdir í 30 daga fangelsi fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum vill umboðsmaður koma eftirfarandi á framfæri.

Umboðsmaður tekur undir ummæli Braga Guðbrandssonar forstjóra Barnaverndarstofu og Helgu Völu Helgadóttur héraðsdómslögmanns í fréttum RÚV 8. maí 2012.

Mikilvægt er að undirstrika að hér er um börn að ræða þó að drengirnir séu sakhæfir. Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er kveðið á um hin ýmsu réttindi barna og unglinga. Þar er að finna almennar reglur eins og t.d. í 3. gr. sáttmálans þar sem segir að það sem börnum er fyrir bestu, skuli alltaf hafa forgang þegar gerðar eru ráðstafanir sem þau varða. Þessi meginregla á að sjálfsögðu við um öll börn og við allar aðstæður. Það hvílir því skylda á öllum þeim sem fara með málefni barna, sem grunuð eru um sakhæfa háttsemi eða hafa verið sakfelld, að taka alltaf tillit til ungs aldurs þeirra. Þá er einnig að finna ákvæði í Barnasáttmálanum sem taka sérstaklega til barna sem gerst hafa brotleg við refsilög. Þau ákvæði eiga það öll sammerkt að þeim er ætlað að tryggja velferð þessara barna.

Taka verður sérstakt tillit til aðstæðna barnungra hælisleitenda og hvað þeir hafa gengið í gegnum áður en þeir ákveða að leita hér hælis. Fangaklefi er örugglega ekki það sem er best fyrir börn í þessum aðstæðum. Uppruni barns á að sjálfsögðu ekki að hafa nein áhrif á meðferð máls enda er það mjög alvarlegt mál þegar börnum er mismunað á einhvern hátt og í engu samræmi við Barnasáttmálann. Börn sem leita hér hælis ættu að fá þá vernd og umönnum sem best þjónar hagsmunum þeirra rétt eins og íslensk börn.

Nánar um börn og afbrot er að finna hér. 
Nánar um barnavernd er að finna hér.