Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Um hámarksfjölda barna í bekk og hádegishlé barna í grunnskólum

Hinn 21. febrúar sl. sendi umboðsmaður barna tölvupóst til mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem hann bar upp tvær spurningar um réttindi nemenda í grunnskólum:

1. Um hámarksfjölda barna í bekk. Hvað telur ráðuneytið eðlilegt að ætla einum kennara að sinna mörgum börnum þannig að hægt sé á að ná markmiðum grunnskólalaga?

2. Um hádegishlé barna. Hvað telur ráðuneytið eðlilegt að sé lágmarksktími fyrir nemendur til að borða hádegismat? Hér er bæði átt við börn sem fá mat úr mötuneyti og þau sem kjósa að borða nesti í hádeginu.

Svar barst frá ráðuneytinu 26. mars 2012:

Tilvísun í mál: MMR12020361

Til umboðsmanns barna

Vísað er í tölvupóst dags. 22. febrúar sl. þar sem spurt er tveggja spurninga um réttindi nemenda í grunnskólum.

1. Um hámarksfjölda barna í bekk.
Fyrir flutning grunnskólans til sveitarfélaga gaf ráðuneytið út reglugerðir um fjölda nemenda í bekk. Frá því að sveitarfélög tóku við rekstri grunnskóla 1996 hafa ekki verið í gildi sérstakar reglugerðir eða reglur um fjölda nemenda í bekk eða námshópum. Við flutninginn var miðað við að sveitarfélög myndu áfram reka grunnskólann með svipuðu sniði og ríkið gerði, en sveitarfélög fengu ákveðið svigrúm til að útfæra grunnskólalög og aðalnámskrá grunnskóla. Með grunnskólalögum nr. 91/2008 er mikilvægt nýtt ákvæði um skólaráð sem á að vera starfrækt í hverjum grunnskóla með fulltrúum frá viðkomandi skólasamfélagi. Skólaráð á að taka þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans í samræmi við stefnu sveitarfélags um skólahald og fjalla um skólanámskrár og starfsáætlanir skólans. Lög um grunnskóla veita sveitarfélögum og skólum verulegt svigrúm og sjálfstæði til að skipuleggja nám í samræmi við þarfir og aðstæður á hverjum stað en meginstefnan, sem kemur fram í lögum og aðalnámskrá grunnskóla, er sú að allir nemendur eigi þess kost að stunda nám í heimaskóla sínum án aðgreiningar. Af þessum sökum telur ráðuneytið ekki rétt að taka afstöðu til fjölda nemenda í bekk, ekki síst þar sem aðstæður og viðfangsefni geta verið með mismunandi hætti.

2. Um hádegishlé barna
Með lögum um grunnskóla nr. 91/2008 voru sett almennari ákvæði um starfstíma skóla en í eldri lögum, m.a. til að skapa aukið svigrúm miðað við aðstæður í skólum til útfærslu. Í því sambandi gilda sömu almennu atriði og varðandi fyrri spurninguna að skólaráð hvers skóla er mikilvægur vettvangur til umræðna um þætti eins og lengd hádegishlés. Aðstæður í skólum geta verið afar mismunandi og ekki þótti ástæða til þess að lögbinda tilekinn lágmarks- eða hámarkstíma í þeim efnum, Í 13. gr. laganna segir að þess skuli gætt að vinnuálag í skóla sé hæfilegt þannig að nemendur fái nægjanlega hvíld frá skipulögðu starfi innan hvers skóladags og skólaárs, svo sem með samfelldu jóla- og páskaleyfi. Í 28. gr. laganna segir að skólastjóri ákveði nánari útfærslu vikulegs kennslutíma í samráði við skólaráð. Við ákvörðun daglegs og vikulegs starfstíma nemenda í grunnskóla skal þess gætt að hann sé samfelldur með eðlilegum hléum og fari ekki fram yfir hæfilegt vinnuálag miðað við aldur nemenda og þroska. Í greinargerð með frumvarpinu eru settar fram nánari útskýringar á þessum breytingum en þar kemur m.a. fram að felld séu brott nákvæm ákvæði um lengd stundahléa og matarhléa þar sem eðlilegt sé að skólar hafi svigrúm til að skipuleggja skóladaginn með það að leiðarljósi að hann sé samfelldur með eðlilegum hléum. Af þessum sökum þá telur ráðuneytið einnig ekki rétt að taka afstöðu til þess hvað sé eðlileg lengd á matarhléum í grunnskólum. Ráðuneytið telur mikilvægt að nemendur fái að koma á framfæri skoðunum sínum og óskum um skólahald og að taka skuli réttmætt tillit til sjónarmiða þeirra.