Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Mega börn ráða því hvort þau fermast?

Umboðsmanni barna hafa borist erindi þar sem börn leita svara varðandi trúfrelsi sitt. Dæmi um erindi af þessu tagi er að börn vilja fermast í kirkju en foreldrar eru því mótfallnir eða börn langar ekki að fermast í kirkju heldur borgaralega, þvert á óskir foreldra. Einnig geta komið upp dæmi þar sem börn vilja alls ekki fermast. Eru þannig dæmi um að foreldrar reyni að hafa áhrif á börn sín og beita einhvers konar þvingun sem felst t.d. í því að segja að annaðhvort fermist barnið eins og foreldrarnir kjósa eða það fermist alls ekki.

Allir njóta frelsis um lífsskoðanir sínar og trúarlegrar sannfæringar samkvæmt íslensku stjórnarskránni. Börn falla að sjálfsögðu undir þetta ákvæði rétt eins og fullorðnir. Börn njóta einnig skoðana- og trúfrelsis samkvæmt 14. gr. Barnasáttmálans, en foreldrar eiga þó rétt á að veita barni leiðsögn í þeim efnum, í samræmi við aldur þeirra og þroska. Aðeins er heimilt að takmarka trúfrelsi með lögum sem nauðsynleg eru til þess að tryggja öryggi almennings og ríkis.

Börn öðlast sjálfstæðan rétt til að ganga í eða skrá sig úr trúfélagi þegar þau hafa náð 16 ára aldri, sbr. 8. gr. laga um skráð trúfélög nr. 108/1999. Í sama ákvæði er kveðið á um það að frá fæðingu teljast börn tilheyra sama trúfélagi og móðir þess. Forsjáraðili eða -aðilar barns taka ákvörðun um inngöngu eða úrsögn barns úr skráðu trúfélagi en hafi barn náð 12 ára aldri skal leita álits þess um slíka ákvörðun.

Þó svo að börn séu skráð í trúfélag þá ráða þau því sjálf hvort þau fermast þar eða ekki, enda snýst ferming um að barn ákveði sjálft að staðfesta trú sína. Foreldrum ber að virða trúfrelsi barna sinna og leyfa þeim sjálfum að ákveða hvort þau vilji fermast eða ekki. Ef barn er ekki skráð í trúfélag og vill fermast þar þarf samþykki foreldra. Foreldrum ber að hlusta á börnin sín og taka tillit til skoðana þeirra hvað varðar málefni sem snerta börnin, með tilliti til aldurs þeirra og þroska, eins og m.a. kemur fram í 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 12. gr. Barnasáttmálans.