Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Endurskoðun leiðbeininga um neytendavernd barna hafin

Nú stendur yfir endurskoðun á leiðbeinandi reglum um neytendavernd barna sem talsmaður neytenda og umboðsmaður barna gáfu út fyrir þremur árum. Gefinn er frestur til 1. febrúar til þess að gera athugasemdir áður en talsmaður neytenda og umboðsmaður barna ljúka yfirstandandi endurskoðun á leiðbeiningarreglum sem ætlað er að auka neytendavernd barna.

Eins og boðað var í fyrra hafa talsmaður neytenda og umboðsmaður barna hafið endurskoðun á leiðbeiningunum. Er þar m.a. höfð hliðsjón af reynslunni undanfarin þrjú ár, svo og hvort lagabreytingar - t.d. nýsett lög um fjölmiðla - leiði til breytinga, þ.á m. hvort bæta þarf við þær eða fella eitthvað brott. Sömuleiðis eru vel þegnar ábendingar um hvort bæta þarf aðhald með því að leiðbeiningunum sé fylgt en á því hefur verið misbrestur.

Samráð við lykilaðila úr stjórnsýslu og á markaði
Meðal þeirra sem komið hafa á fund til þess að ræða hugsanlegar breytingar er framkvæmdarstjóri nýstofnaðrar fjölmiðlanefndar. Einnig hefur m.a. verið rætt við fulltrúa Neytendastofu, Póst- og fjarskiptastofnunar, skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og landlæknisembættið sem m.a. fer með lýðheilsumál en á þau er lögð mikil áhersla í leiðbeiningunum. Úr hópi samtaka hefur m.a. verið fundað með fulltrúa Neytendasamtakanna, og Íþrótta- og ólympíusambands Íslands.

Allar ábendingar vel þegnar
Ef aðrir aðilar - samtök, stofnanir, fyrirtæki, foreldrar, börn eða aðrir neytendur - vilja koma ábendingum á framfæri er það vel þegið, annað hvort í tölvupósti í síma 510 11 21 eða á fundi.

Skráargatið orðið virkt
Loks áttu embættin fund með tveimur stórfyrirtækjum á sviði mat- og drykkjarvöruframleiðslu en þess má geta að í gær birtist fyrsta auglýsingin þar sem íslenskar matvörur eru auglýstar undir merki Skráargatsins sem er stór áfangi enda liður í að koma á framfæri betri skilaboðum um hollustu matvæla.

***

 

Leiðbeinandi reglur um neytendavernd barna
Leiðbeiningarreglur ásamt skýringum


Nánar um neytendavernd barna