Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Upplýstir og ábyrgir einstaklingar

Eitt helsta markmið Barnasáttmálans er að börn fái tækifæri til að þroskast þannig að þau verði upplýstir og ábyrgir einstaklingar. Eðli málsins samkvæmt þurfa börn meiri umhyggju og ríkari vernd meðan þau eru ung að árum. Eftir því sem þau verða eldri og þroskaðri þurfa þau jafnframt í auknum mæli að fá tækifæri til að hafa áhrif á líf sitt og umhverfi.

Í 3. gr. Barnasáttmálans segir að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar yfirvöld taka ákvarðanir er varða börn. Forsenda þess, að yfirvöld geti tekið slíkar ákvarðanir, er að börn fái að segja álit sitt, að á þau sé hlustað og skoðanir þeirra virtar í samræmi við aldur þeirra og þroska, sbr. 12. gr. sáttmálans. Þetta er grunnurinn að nútímaviðhorfi til barna sem sjálfstæðra einstaklinga með eigin réttindi.

Þessi réttur barna er ekki einungis bundinn við persónuleg málefni, heldur nær hann einnig til málefna samfélagsins og þá fyrst og fremst þeirra málefna er varða nánasta umhverfi barnanna og þau þekkja af eigin raun. Sem dæmi má nefna ákvarðanir varðandi skólastarf, tómstundir, forvarnastarf og skipulag íbúðahverfa. Rökin eru þau að ákvarðanir sem þessar beinast að börnunum sjálfum, lífsskilyrðum þeirra og velferð. Því liggur það í hlutarins eðli að til þess að unnt sé að taka slíkar ákvarðanir þurfa yfirvöld að leita eftir skoðunum barnanna sjálfra og taka tillit til þeirra.