Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Samþykki barna til brottnáms líffæra eða lífrænna efna úr eigin líkama - Bréf

Umboðsmaður hefur í nokkurn tíma haft áhyggjur af réttarstöðu barna sem mögulega þurfa og/eða vilja gefa úr sér líffæri eða lífræn efni, svo sem beinmerg. Samkvæmt lögum er börnum óheimilt að gefa samþykki til brottnáms líffæris eða lífrænna efni, undir hvaða kringumstæðum sem er. Þó er ljóst að það tíðkast að einhverju leyti í framkvæmd að börn gefi líffæri eða lífræn efni. Umboðsmaður barna hefur því sent velferðarráðherra bréf til að vekja athygli ráðuneytisins á ofangreindu málefni enda er brýnt að framkvæmd fari ekki í bága við lög.

Bréfið er svohljóðandi:

Velferðarráðuneytið
b.t. Guðbjarts Hannessonar
Hafnarhúsinu við Tryggvagötu
150 Reykjavík

Reykjavík, 13. október 2011
UB: 1110/8.3.0

Efni: Samþykki barna til brottnáms líffæra eða lífrænna efna úr eigin líkama

Umboðsmaður barna vill vekja athygli ráðherra á brottnámi líffæra og lífrænna efna úr börnum. Er um að ræða álitaefni sem er í senn siðferðislegt og læknisfræðilegt auk þess sem það snertir ýmis réttindi barna. Þar sem um er að ræða víðtækt og flókið álitamál er nauðsynlegt að aðilar úr ýmsum fagstéttum komi saman og ræði umrætt málefni með það fyrir augum að finna lausn í samræmi við hagsmuni og sjónarmið barna. Umboðsmaður treystir sér ekki til þess að taka afstöðu til fyrrnefnds álitaefnis án aðkomu sérfræðinga. Umboðsmaður telur rétt að velferðarráðherra hafi frumkvæði að slíku samstarfi.

Í 1. gr. laga um brottnám líffæra nr. 16/1991 er kveðið á um að hver sem er orðinn 18 ára geti gefið samþykki til brottnáms líffæris eða lífrænna efna úr eigin líkama til að nota við læknismeðferð annars einstaklings. Samkvæmt fyrrnefndum lögum er börnum óheimilt að gefa samþykki til brottnáms líffæris eða lífrænna efni, undir hvaða kringumstæðum sem er. Þó er ljóst að það tíðkast að einhverju leyti í framkvæmd að börn gefi líffæri eða lífræn efni.

Umboðsmaður barna telur nauðsynlegt að þar til bærir aðilar taki afstöðu til þess hvort heimila eigi brottnám líffæra eða lífrænna efna úr börnum að einhverju leyti. Er því mikilvægt að reglur um brottnám líffæra eða lífrænna efna verði endurskoðaðar með tilliti til hagsmuna barna. Annars vegar þarf að taka til skoðunar hagsmuni þeirra barna sem þurfa á líffærum og lífrænum efnum að halda og hagsmuni þeirra barna sem vilja gefa líffæri eða lífræn efni. Hins vegar þarf einnig að taka til skoðunar þau tilfelli þegar börn eru of ung til að gefa samþykki sitt og skilja afleiðingar ákvarðanna sinna.

Umboðsmaður barna leggur áherslu á að fara þurfi með gát þegar inngrip í líkama barna er heimilað sem ekki er nauðsynlegt af læknisfræðilegum ástæðum. Eftir því sem inngrip í líkama barna er meira og afleiðingarnar varanlegri því meiri ástæða er til að tryggja börnum ríkari vernd. Þegar tekin er afstaða til þess verður þó að sjálfsögðu að hafa í huga hagsmuni þeirra sem þurfa á líffærum eða lífrænum efnum að halda, sérstaklega ef viðkomandi er líka barn eða tengist barninu náið. Ef um er að ræða einfalda og hættulitla aðgerð gæti verið réttlætanlegt að leyfa brottnám líffæris eða lífrænna efna í slíkum tilvikum.

Umboðsmaður barna vill vekja athygli velferðarráðuneytisins á ofangreindu málefni enda er brýnt að framkvæmd fari ekki í bága við lög. Ef óskað er eftir frekari upplýsingum um ofangreint er ráðuneytinu velkomið að hafa samband við undirritaða.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna