Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Athugasemdir umboðsmanns vegna fyrirhugaðs niðurskurðar á fjárframlagi til Barnaverndarstofu

Vegna fyrirhugaðs niðurskurðar á framlagi ríkisins til Barnaverndarstofu í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012 hefur umboðsmaður barna komið athugasemdum á framfæri við fjárlaganefnd. Í erindi sínu sem sent var 10. október 2011 bendir umboðsmaður á líklegar afleiðingar niðurskurðar og hvetur fjárlaganefnd til þess að leita annarra leiða við niðurskurð áður en þjónusta við börn er skert.

Bréfið er svohljóðandi:

 

Nefndarmenn í fjárlaganefnd
Skrifstofa Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 10. október 2011
UB: 1110/4.1.1

 

Efni: Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012. Niðurskurður hjá Barnaverndarstofu.

Vegna fyrirhugaðs niðurskurðar á framlagi ríkisins til Barnaverndarstofu í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012 vill umboðsmaður barna koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri við fjárlaganefnd.

Ljóst er að niðurskurður undanfarinna ára hefur nú þegar bitnað umtalsvert á börnum. Meirihluti barna býr við góð skilyrði en umboðsmaður hefur sérstakar áhyggjur af þeim börnum sem voru í viðkvæmri stöðu fyrir hrun. Margar vísbendingar eru um að þessi hópur barna sé mun verr settur nú en áður. Stór hluti þeirra þarf á þjónustu barnaverndarkerfisins að halda. Sá niðurskurður sem boðaður er í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012 hefur því bein áhrif á þessi börn. Rétt er að hafa í huga að umrædd börn standa oft ein og eiga sér fáa málsvara sem vekja athygli á þörfum þeirra, því er staða þeirra innan samfélagsins sérstaklega veik.

Með fyrirhuguðum niðurskurði er hætta á alvarlegum afleiðingum fyrir velferð þessara barna og auknum kostnaði fyrir ríki og sveitarfélög þegar til lengri tíma er litið, eins og reynsla nágrannaþjóða okkar hefur meðal annars sýnt. Er því mikilvægt að halda sérstaklega vel utan um börn á þessum erfiðu tímum og sjá til þess að þau njóti þeirrar þjónustu sem velferð þeirra krefst og nauðsynleg er til að þau nái líkamlegum, andlegum og félagslegum þroska, sbr. 27. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Börn eiga einungis eina æsku og einn möguleika til að ná eðlilegum þroska og ef börn fá ekki þann möguleika þá bera þau þann skaða með sér það sem eftir er.

Til útskýringar á því hvað felst í fyrirhuguðum niðurskurði má minna á umræðu sl. vor um úrræðaleysi þegar kemur að börnum sem stríða við vímuefnavanda, alvarlegar geðraskanir og hegðunarvanda. Í einhverjum tilfellum hafa þessi börn ekki í nein hús að venda og gatan ein bíður þeirra. Eins og staðan er í dag eru dæmi um að börn sem þurfa að komast í skjól frá erfiðum aðstæðum heima hjá sér lenda oft í samvistum við börn sem eiga í alvarlegum vímuefnavanda vegna skorts á neyðarvistun eða öðrum úrræðum fyrir þau síðarnefndu.

Þá má nefna að í lok september þessa árs var Ísland tekið fyrir hjá Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna í Genf. Í skriflegum svörum íslenskra stjórnvalda við spurningum Barnaréttarnefndarinnar sem tekin voru saman fyrir fundinn segir meðal annars:

Thus, the Icelandic authorities aim at maintaining, and preferably, increasing the scope of protection and well-being of children in Iceland by not reducing the level of services both for children and families with dependent children under the age of 18

Þar að auki kom m.a. fram í máli fulltrúa ríkisins að til stæði að hefja vinnu við að útvega börnum sem hafa brotið af sér sérúrræði þannig að þau þurfi ekki að afplána dóma með fullorðnum föngum. Ef fjármagn til Barnaverndarstofu verður ekki aukið er ljóst að þessi áform verða að engu og ekki verður unnt að lögfesta Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á næstunni eins og Alþingi ályktaði um árið 2009.

Vegna þess efnahagsástands sem ríkt hefur hér á landi á undanförnum árum er ljóst að ríki og sveitarfélög þurfa að endurskipuleggja starfsemi sína og hagræða eins og hægt er. Við alla forgangsröðun er hins vegar mikilvægt að hafa í huga að börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem á rétt á sérstakri vernd og þjónustu umfram aðra þjóðfélagsþegna, sbr. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Umboðsmaður barna hvetur fjárlaganefnd til að leita annarra leiða við niðurskurð áður en þjónusta við börn er skert með einum eða öðrum hætti. Því til stuðnings bendir umboðsmaður á 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem felur í sér að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn.

Umboðsmaður barna vill í þessu sambandi benda á að gæta þurfi sérstakrar varkárni þegar tekin er ákvörðun um að skerða réttindi sem þegar er búið að veita. Nefnd Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi hefur bent á að efnahagsstaða ríkis ein og sér dugar ekki til að réttlæta skerðingu á slíkum réttindum.

Loks vill umboðsmaður barna lýsa yfir áhyggjum sínum vegna annars niðurskurðar sem bitnar á börnum og hafa ofangreind sjónarmið í huga. Í því sambandi vísar umboðsmaður til áðursends bréfs til nefndarinnar dagsett 21. október 2010.

Ef óskað er frekari upplýsinga er umboðsmaður reiðubúinn til þess að veita þær bæði munnlega og skriflega.


Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna