Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Áfengisauglýsingar

Umboðsmaður barna hefur sent Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra bréf þar sem hann skorar á stjórnvöld að gera ákvæði 1. mgr. 20. gr. áfengislaga skýrara þannig að hvers kyns áfengisauglýsingar verði bannaðar, hvort sem um er að ræða „léttöl“ eða ekki.

Bréfið er svohljóðandi:

 

Innanríkisráðuneytið
b.t. Ögmundar Jónassonar
Sölvhólsgötu 7
150 Reykjavík

Reykjavík, 15. ágúst 2011

                           
Efni: Bann við áfengisauglýsingum

Umboðsmanni barna berast reglulega ábendingar vegna áfengisauglýsinga á viðburðum sem börn sækja. Nýleg ábending snéri að söngvakeppni barna á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum þar sem sigurvegarar keppninnar sungu á aðalsviðinu í Herjólfsdal þar sem sjá mátti stórar auglýsingar þar sem Tuborg var auglýst (sjá kvöldfréttir Ríkissjónvarpsins 30. júlí 2011). Í þeim tilvikum þegar áfengi er auglýst er um að ræða auglýsingar á „léttöli“ og má því deila um hvort brotið sé gegn 1. mgr. 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998.

Umboðsmaður barna hefur áður vakið athygli á nauðsyn þess að takmarka dulbúnar áfengisauglýsingar með virkum hætti. Auglýsingum er almennt ætlað að hafa þann tilgang að hvetja til neyslu og stuðla að jákvæðu viðhorfi til þeirrar vöru sem auglýst er. Börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem á rétt á sérstakri vernd, sbr. m.a. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Börn eru auk þess sérstaklega viðkvæm fyrir allri markaðssetningu og hafa auglýsingar því almennt meiri áhrif á þau en aðra. Áfengisauglýsingar hafa þannig áhrif á viðhorf barna til áfengis og stuðla að aukinni neyslu unglinga. Ljóst er að áfengi hefur ýmis skaðleg áhrif á líffæri, þroska og almenna velferð barna.

Umboðsmaður barna vill leggja áherslu á að áfengis- og léttölsauglýsingar eiga aldrei rétt á sér á viðburðum sem börn sækja.Hagsmunir barna og unglinga af því að njóta verndar gegn áfengisauglýsingum eiga alltaf að vega þyngra en fjárhagslegir hagsmunir þeirra sem standa að viðburðum sem ætlaðir eru fjölskyldufólki, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans sem kveður á um að það sem er börnum fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn. Þessum ábendingum hefur þegar verið komið á framfæri við sýslumenn, sveitastjórnir og lögreglustjóra.

Umboðsmaður barna skorar á stjórnvöld að gera ákvæði 1. mgr. 20. gr. áfengislaga skýrara þannig að hvers kyns áfengisauglýsingar verði bannaðar, hvort sem um er að ræða „léttöl“ eða ekki.

Ef óskað er eftir frekari upplýsingum vinsamlegast hafið samband í síma 552-8999 eða sendið tölvupóst á ub@barn.is

Virðingarfyllst,
 
__________________________________
Margét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna