Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Skýrsla um list- og menningarfræðslu á Íslandi

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gefið út í íslenskri þýðingu skýrslu Anne Bamford um list- og menningarfræðslu á Íslandi.

Í frétt á vefsvæði ráðuneytisins dags. 2. maí 2011 segir:

Árið 2009 lauk Anne Bamford prófessor við viðamikla rannsókn á listfræðslu á Íslandi sem lýsti listfræðslu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi, auk þess að skoða sérskóla í öllum listgreinum og samskipti þeirra við skólakerfið. Niðurstöður hennar birtust í skýrslunni ,,Art and cultural education in Iceland“. Nú hefur skýrslan verið þýdd og gefin út til að hún fái sem besta dreifingu og umræðu innan skólasamfélagsins.

Rannsóknin var ein sú viðamesta sem ráðist hefur verið í á íslensku skólakerfi af erlendum sérfræðingi. Heimsóttir voru skólar víðsvegar á landinu og rætt við fólk bæði innan og utan skólakerfisins. Í skýrslunni eru gæði listfræðslu í skólakerfinu metin í alþjóðlegu samhengi og settar fram ýmsar ráðleggingar og tillögur til umbóta. Ein helsta niðurstaða skýrslunnar er sú að listfræðsla á Íslandi sé góð á alþjóðlegan mælikvarða og njóti víðtæks stuðnings í samfélaginu.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur tekið fjölmargar ábendingar sem koma fram í skýrslunni til skoðunar og haft þær til hliðsjónar við þá vinnu sem hefur farið fram við stefnumótun í list- og menningarfræðslu. Má þar nefna endurskoðun á námskrá listgreina fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og viðbótarstig eftir framhaldsskóla.