Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Lýðræði í leikskólum - Bréf

Umboðsmaður barna hefur sent bréf til allra leikskólastjóra um lýðræði í leikskólum. Ætlunin er að safna saman upplýsingum frá leikskólum um verkefni þar sem sérstaklega er unnið út frá hugmyndum um grunngildi lýðræðis og lýðræðislegs samfélags. Í framhaldinu er stefnt að því að hafa upplýsingarnar aðgengilegar á heimasíðu embættisins, www.barn.is, þangað sem starfsfólk leikskóla og aðrir sem hafa áhuga geta leitað til að fá hugmyndir um verkefni og vinnulag. Bréfið er svohljóðandi:

Reykjavík,  26. apríl 2011

Kæri leikskólastjóri.
 
Umboðsmaður barna hefur áhuga á því að kynna sér hvernig unnið er með lýðræði og mannréttindi á fyrsta skólastiginu en þessir þættir eru ein af meginstoðum nýrrar menntastefnu eins og sjá má í 2. gr. leikskólalaga nr. 90/2008:

2. gr. Markmið.
Í leikskólum skal velferð og hagur barna hafður að leiðarljósi í öllu starfi. Veita skal börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Stuðla skal að því að nám fari fram í leik og skapandi starfi þar sem börn njóta fjölbreyttra uppeldiskosta. Starfshættir leikskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi, virðingu fyrir manngildi og kristinni arfleifð íslenskrar menningar.
Meginmarkmið uppeldis og kennslu í leikskóla skulu vera:
   a. að fylgjast með og efla alhliða þroska barna í náinni samvinnu við foreldra,
   b. að veita skipulega málörvun og stuðla að eðlilegri færni í íslensku,
   c. að hlúa að börnum andlega, vitsmunalega og líkamlega í samræmi við þarfir hvers og eins svo að börnin fái notið bernsku sinnar,
   d. að stuðla að víðsýni barna og efla siðferðisvitund þeirra,
   e. að leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun,
   f. að rækta hæfileika barna til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að styrkja sjálfsmynd þeirra, heilbrigðisvitund, öryggi og hæfni til mannlegra samskipta.

Umboðsmaður barna hefur lengi haft 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í starfi sínu en þar er kveðið á um rétt barna til að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Þá má nefna að í 13. grein sáttmálans segir að börn eigi rétt  á að tjá sig, fá upplýsingar og koma þeim á framfæri.

Umboðsmanni barna er kunnugt um að í leikskólum er víða unnið gott og faglegt starf á þessu sviði. Því leitar umboðsmaður nú til leikskólastjóra og óskar eftir því að þeir sendi embættinu stutta lýsingu á því hvernig er unnið með þátttöku og lýðræði í þeirra skólum. Hér er átt við merkingu orðsins í víðum skilningi, þ.e. allt sem undirbýr börn undir þátttöku í lýðræðislegu samfélagi, s.s. tjáningu, mannréttindafræðslu, virðingu fyrir öðrum, málamiðlanir og fleiri þætti sem teljast forsendur lýðræðislegs samfélags.

Ætlunin er að safna saman upplýsingum frá leikskólum um verkefni þar sem sérstaklega er unnið út frá hugmyndum um grunngildi lýðræðis og lýðræðislegs samfélags. Í framhaldinu er stefnt að því að hafa upplýsingarnar aðgengilegar á heimasíðu embættisins, www.barn.is, þangað sem starfsfólk leikskóla og aðrir sem hafa áhuga geta leitað til að fá hugmyndir um verkefni og vinnulag.

Undirrituð vonar að þið gefið ykkur tíma til  að setja saman nokkrar línur um lýðræðisstarf í skólum ykkar. Kallað er eftir stuttum frásögnum sem gefa einhverja mynd af verkefnunum og  þeim uppeldishugmyndum sem unnið er út frá. Vinsamlega sendið svör ykkar á netfangið ub@barn.is.

Að lokum vill umboðsmaður taka fram að öllum er velkomið að leita til embættisins til að fá leiðbeiningar um réttindi og hagsmunamál barna eða til að koma ábendingum um það sem betur má fara á framfæri.  Þá vill umboðsmaður gjarnan heimsækja leikskólana og kynna starfsemi embættisins, ræða þau réttindamál barna sem áhugi er fyrir að ræða og um leið kynnast betur starfi leikskólanna.

Sumarkveðja,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna