7. mars 2011
Félagslegar aðstæður pólskra barnafjölskyldna í Reykjavík - Málstofa
Á morgun, 8. mars, verða kynntar niðurstöður könnunar á á félagslegum aðstæðum pólskra barnafjölskyldna í Reykjavík. Málstofan verður í stofu 201 í Odda í Háskóla Íslands og stendur frá kl. 12:10 til 13:00. RBF , Rannsóknasetur í barna- og fjölskylduvernd stendur fyrir málstofunni.
Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, félagsráðgjafi, Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða og Ásta Guðmundsdóttir félagsráðgjafi hjá Barnavernd Reykjavíkur og MA nemi í félagsráðgjöf við HÍ kynna niðurstöður rannsóknar um aðstæður pólskra barnafjölskyldna í Reykjavík.
Markmið rannsóknarinnar var að afla vitneskju um félagslega stöðu pólskra barna og fjölskyldna þeirra í Reykjavík. Spurt var um félagslega stöðu og líðan, uppruna og tungumálakunnáttu, aðstæður barnanna og persónulega hagi. Leitast var við að fá innsýn í tengsl fjölskyldanna við nærsamfélag sitt annars vegar og heimaland sitt hins vegar. Samkvæmt Þjóðskrá var 481 fjölskylda með barn yngra en 18 ára þar sem a.m.k. annað foreldri hafði pólskt ríkisfang búsett í Reykjavík í desember 2010. Kynntar verða niðurstöður úr símakönnun sem gerð var í desember 2010.
Niðurstöður benda helst til þess að pólskum barnafjölskyldum líði vel á Íslandi og hafi í huga að búa áfram hér á landi. Um helmingur þátttakenda telja sig tala íslensku frekar eða mjög illa og svo virðist sem það hafi áhrif á hversu vel þeir geti nýtt sér þá þjónustu sem í boði er.
Vonast er til að niðurstöður leiði til hagnýtrar þekkingar sem getur komið að gagni fyrir stjórnvöld og þá sem starfa með börnum af erlendum uppruna ásamt því að bæta hag barnanna sjálfra. Þá er hægt að endurskoða skipulag þjónustu Reykjavíkurborgar og mögulega betrum bæta þjónustu við barnafjölskyldur af erlendum uppruna, s.s. í skólakerfinu, velferðarþjónustu, tómstundum og félagasamtökum.