Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Reglur um úthlutun jöfnunarstyrks til skoðunar

Í byrjun desember á síðasta ári sendi umboðsmaður barna menntamálaráðherra bréf þar sem bent er á að þau börn eigi ekki kost á jöfnunarstyrk til náms sem ekki hafa íslenskan ríkisborgararétt og koma hvorki frá löndum innan EES né hafa ríkisborgararétt í þeim löndum sem ríkið hefur gert þjóðréttarlegan samning við, jafnvel þó að þau hafi búið á Íslandi í mörg ár og sótt hér grunnskólanám. Í bréfinu segir að reglur um úthlutun jöfnunarstyrks feli í sér mismunun á grundvelli ríkisfangs sem brýtur í bága við 2. gr. Barnasáttmálans. Sjá bréfið hér.

Nú hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið svarað umboðsmanni þar sem segir að ráðuneytið muni hafa þessa ábendingu til hliðsjónar við undirbúning frumvarps til breytinga á lögum um námsstyrki nr. 79/2003.

Umboðsmaður fagnar þessum viðbrögðum og vonar að í framtiðinni geti öll börn sem útskrifast úr grunnskóla hér á landi og eiga lögheimili fjarri framhaldsskóla átt rétt á jöfnunarstyrk óháð ríkisfangi.