Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Opinbert hollustumerki myndi auka neytendavernd barna

Leiðbeiningar um neytendavernd barna yrðu strax mun virkari ef hollustumerki að skandinavískri fyrirmynd (skráargatsmerki) yrði tekið upp eins og talsmaður neytenda og umboðsmaður lögðu til fyrir tveimur árum.

Talsmaður neytenda og umboðsmaður barna fagna auknum áhuga fjölmiðla, samtaka og stjórnvalda á því að taka upp opinbert hollustumerki (skráargatsmerkið) að skandinavískri fyrirmynd - eins og embættin lögðu formlega til við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (ráðherra matvælamála) fyrir tæpum tveimur árum. Var sú tillaga send ráðherra í mars 2009 eftir um 3ja ára samráð við u.þ.b. 100 aðila og liður í samstarfsverkefni embættanna um að koma á aukinni neytendavernd barna.

Hollustumerki lykilatriði í að virkja leiðbeiningar um aukna neytendavernd barna
Lauk þeim áfanga með útgáfu leiðbeinandi reglna um aukna neytendavernd barna. Þar er hollusta matvæla lykilatriði því að stór þáttur í þeim er að sporna við óhollum matvælum, þ.e.

markaðssókn gagnvart börnum á matvælum með hátt innihald sykurs, salts, fitu og transfitu. (Ákvæði III, 1)

Þá segir í leiðbeiningarreglunum (ákvæði III, 2):

Hollustumerki
Ef opinbert hollustumerki verður tekið upp skal leitast við að aðeins matvæli, sem uppfylla kröfur þess hollustumerkis, séu

  • nærri kassa,
  • auglýst í kringum bíósýningar og á DVD-diskum fyrir ung börn;
  • markaðssett með aðstoð kaupauka sem höfðar sérstaklega til barna;
  • markaðssett með þekktum teiknimyndafígúrum eða frægum persónum sem höfða sérstaklega til barna,
  • auglýst eða boðin til sölu á áberandi stað í sundlaugum og íþróttamannvirkjum;
  • framvegis með nafngift, sem gefur í skyn hollustu og eru sérstaklega ætluð fyrir börn.

Breytinga að vænta?
Þrátt fyrir ítrekanir hefur embættum talsmanns neytenda og umboðsmanns barna enn ekki borist svar frá matvælaráðuneytinu varðandi tillögu þessa en fréttir hafa verið sagðar af því að Matvælastofnun hafi verið falið að undirbúa málið. Embætti umboðsmanns barna og talsmanns neytenda fagna því og binda vonir við að hollustumerkið (skráargatið) verði brátt eitthvað sem allir neytendur þekkja - bæði börn og fullorðnir.

***

Frekari upplýsingar veita Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, í síma 510 11 21 og Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna, í síma 552 89 99