Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Jöfn dvöl barna hjá foreldrum

Þróunin hér á landi virðist vera sú að fleiri og fleiri foreldrar velja svokallaða jafna umgengni, þ.e. að börn þeirra dvelji hjá þeim til skiptis viku og viku. Oft er spurt hvernig þetta fyrirkomulag hentar börnum. Því er erfitt að svara með einföldum hætti enda eru aðstæður barna mjög mismunandi. Í þeim tilvikum sem samkomulag milli foreldra er gott og þeir búa í sama hverfi getur jöfn búseta hentað vel. Þegar miklar deilur eru á milli foreldra hentar þetta fyrirkomulag illa vegna þeirrar togstreitu sem börnin finna sífellt fyrir. 

Ákvörðun um jafna umgengni og endurskoðun
Við mat á því hvort jöfn umgengni henti barni skiptir vilji þess, líðan og aðlögunarhæfni mestu máli. Mikilvægt er að hlusta á börnin og taka réttmætt tillit til skoðana þeirra. Eftir því sem börn verða eldri á vilji þeirra að fá meira vægi. Foreldrar þurfa þó að hafa í huga að börnum ber ekki skylda til að tjá sig ef þau vilja það ekki. Foreldrar verða alltaf að bera ábyrgð á ákvörðun um búsetu og umgengni og mega aldrei stilla börnum sínum upp við vegg. Börn vilja eðlilega þóknast foreldrum sínum og því verða foreldrar að gæta þess að spila ekki með sektarkennd barnanna. Börnin verða að geta tjáð vilja sinn án þess að eiga það á hættu að foreldrar sýni vonbrigði.
 
Þá er mikilvægt að meta tengsl barns við foreldra og aðra á heimilinu, s.s. stjúpforeldra. Ef barn hefur búið með báðum foreldrum er almennt auðveldara fyrir það að aðlagast jafnri umgengni en í þeim tilvikum sem það hefur aldrei búið með öðru foreldrinu.
 
Mikilvægt er að vera vakandi yfir líðan barnanna og endurskoða fyrirkomulag umgengni þegar þörf er á. Á það sérstaklega við þegar breytingar verða á heimilishögum foreldra, t.d. ef þeir flytja eða eignast nýjan maka. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að þarfir barna breytast og það sem hentar barni á leikskólaaldri hentar því ekki endilega þegar það kemst á unglingsaldur.
 
Kostir og góð dæmi
Kostir jafnrar umgengni eru fyrst og fremst þeir að börn fá tækifæri til að njóta samveru með báðum foreldrum og foreldrar taka báðir virkan þátt í uppeldi barna sinna.
 
Það eru mörg dæmi um að jöfn umgengni hafi gengið vel og eiga þau það öll sameiginlegt að foreldrar vinna vel saman, samskipti þeirra eru góð og þeir eru samtaka í uppeldinu. Einnig virðist það hafa jákvæð áhrif ef foreldrar búa nálægt hvor öðrum, sérstaklega eftir að börn komast á grunnskólaaldur. Þá skipta vegalengdir til skóla, í tómstundastarf og til vina miklu máli. Jöfn umgengni getur verið frábær kostur þegar börn hafa jafnan aðgang að heimilum beggja foreldra og þau finna að foreldrarnir og eftir atvikum makar þeirra geta rætt málin í vinsemd og sýnt ákveðinn sveigjanleika.
 
Gallar og slæm dæmi
Það er mikilvægt að hafa í huga að jöfn umgengni hentar ekki öllum börnum. Þannig getur í ákveðnum tilvikum verið erfitt fyrir barn að eiga tvö heimili, enda skipta öryggi og stöðugleiki miklu máli í lífi barna. Í sumum tilvikum virðist vera minna eftirlit með börnum sem búa á tveimur heimilum, sérstaklega þegar þau komast á unglingsaldur.
 
Sem dæmi um tilvik þar sem jöfn umgengni hentaði barni illa má nefna ungling sem bjó aðra hvora viku í einu hverfi og hina í öðru. Hann var alls ekki ánægður með þetta fyrirkomulag enda langt að fara í skóla, til vina og á íþróttaæfingar. Hann benti foreldrum sínum á að þeir gætu miklu frekar búið til skiptis hjá honum þar sem þau væru á bíl og ættu auðveldara með að fara á milli staða.
 
Þegar samskipti foreldra eru erfið getur það bitnað á börnum á ýmsan hátt og skapað mikla togstreitu og álag á börnin. Dæmi eru um að foreldrar vilji að börnin skipti lífi sínu alveg í tvennt og taki ekkert á milli heimila, hvorki föt né leikföng. Þannig er eignaréttur barna ekki virtur og hagsmunir þeirra ekki settir í forgang.
 
Að lokum
Umboðsmaður barna telur að ákvarðanir um búsetu og umgengni barna taki of oft fremur mið af vilja foreldra en hagsmunum barna. Í því sambandi er gott að hafa í huga að við eigum ekki að bjóða börnum upp á aðstæður sem við myndum ekki sætta okkur við sjálf. Væru foreldrar almennt tilbúnir að eiga tvö heimili og búa aðra hvora viku á heimili barns síns?
 
Það getur verið ómetanlegt fyrir barn að fá tækifæri til að búa hjá báðum foreldrum og kynnast báðum fjölskyldum sínum en það verður ávallt að vera á forsendum barnsins og miða við hagsmuni þess.