Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Börn sem eru vitni að heimilisofbeldi

verndumbornSamtökin Barnaheill - Save the Children á Íslandi kynntu í gær nýja rannsókn um stuðning við börn sem búa við heimilisofbeldi. Skýrslan sýnir að úrræðum fyrir þau börn sem verða vitni að heimilisofbeldi er afar ábótavant. Auka þarf vitund um að börn þolenda heimilisofbeldis eru einnig fórnarlömb ofbeldisins. Afar sjaldgæft er að sérfræðingar tali við börnin um heimilisofbeldið sem þau verða vitni að. Í frétt á vefsvæði Barnaheilla segir m.a:

Þegar litið er yfir það verklag sem tíðkast í Reykjavík í málum af þessum toga má segja að flestir líti svo á að með því að tilkynna um mál til barnaverndar sé tryggt að börn sem eru vitni að heimilisofbeldi fái þann stuðning og öryggi sem þau þurfa. En í raun og veru er gap á milli þeirra væntinga sem viðmælendur hafa til barnaverndar og þess hvernig barnavernd tekur og getur tekið á málum. Í félagslega kerfinu virðist ekki vera skimað sérstaklega eftir því hvort börn eru vitni að heimilisofbeldi né lagt markvisst mat á líðan þeirra svo hægt sé að veita þeim viðeigandi aðstoð. Í dag er í boði eitt hópúrræði á vegum Barnaverndarstofu fyrir börn sem verið hafa vitni að heimilisofbeldi. Skilyrði fyrir þátttöku í þeirri meðferð er að ofbeldi sé ekki lengur til staðar á heimili, barnið sé eldra en fimm ára og tali íslensku.

Fyrir þau börn sem búa við heimilisofbeldi núna, eru yngri en fimm ára eða tala ekki íslensku er því lítið sem ekkert í boði.

Umboðsmaður barna fagnar útkomu skýrslu Barnaheilla og vonar að hún hreyfi við málum þannig að fagfólk fari að ræða við börn sem eru fórnarlömb heimilisofbeldis, hvort sem ofbeldinu er beinlínis beint að þeim eða foreldri þeirra, og að tekið sé mark á þeim og þeirra upplifun á aðstæðum. Umboðsmaður tekur undir með Barnaheillum þegar þau segja:

Það er afar brýnt að koma á heildstæðri stefnu í málum barna sem eru vitni að heimilisofbeldi, með viðeigandi skimun, úrræðum, formlegu samstarfi og samhæfingu á milli stofnana, þ.á.m. lögreglu, barnaverndar, félagsþjónustu, skólakerfis, dómskerfis og heilbrigðisþjónustu.

Hér má lesa frétt, dags. 16. febrúar 2011, af vef Barnaheilla um útkomu skýrslunnar.

Hér er hægt að skoða gagnlegar upplýsingar, auglýsingu og undirskriftalista um aðstæður barna sem búa við heimilisofbeldi.