Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Allt hefur áhrif - einkum við sjálf. Stöðumat 2009; leik- og grunnskólar

Út er komin skýrsla með niðurstöðum kannana sem Lýðheilsustöð gerði á meðal leik- og grunnskólastjóra á Íslandi vorið 2009. Niðurstöðurnar varpa ljósi á stöðu helstu þátta sem snerta aðstæður, framboð og hvernig unnið er að hreyfingu og hollri næringu í öllum leik- og grunnskólum landsins.

Smella hér til að skoða skýrsluna Stöðumat 2009; leik- og grunnskólar.  

Lýðheilsustöð hefur síðastliðin 6 ár unnið, í samvinnu við sveitarfélög, að verkefninu Allt hefur áhrif-einkum við sjálf! sem hefur það markmið að stuðla að góðum lífsháttum barna og fjölskyldna þeirra með áherslu á hreyfingu og næringu. Við upphaf verkefnisins, árið 2005, var staðan könnuð og voru m.a. lagðar fyrir grunn- og leikskólastjóra. Sem liður í að meta verkefnið var aftur lögð könnun fyrir leik- og grunnskólastjóra vorið 2007 og 2009. Í skýrslunni er greint frá niðurstöðum þessarar síðustu könnunar.

Hreyfing
Víða um land hefur verið unnið gott starf í leikskólum og grunnskólum við að skapa aðstöðu til heilsusamlegra lífshátta barna með áherslu á hreyfingu og næringu. En samkvæmt niðurstöðunum mætti gera aðeins betur. Í leikskólum þyrfti að sjá til þess að í stundaskrá þeirra væri meiri hreyfing. Mikilvægt er að gert sé ráð fyrir skipulögðum hreyfistundum og að starfsmenn taki meiri þátt í hreyfingu barnanna. Til að auðvelda þetta þarf að bæta aðgengi leikskólabarna að aðstöðu til hreyfingar, þannig að sem flestir leikskólar hafi aðgang að íþróttasal. Í grunnskólunum er mjög mismunandi hvort nemendur séu hvattir til hreyfingar, svo sem leikja í frímínútum, í viðbót við hefðbundna íþróttatíma.

Næring
Matur og drykkur í leikskólum og grunnskólum virðist að talsverðu leyti vera í samræmi við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar. Samkvæmt könnuninni 2009 er nokkuð um að boðið sé upp á unnar kjötvörum á báðum skólastigum oftar en ráðleggingar segja til um og mætti draga úr því. Nær allir leikskólar í landinu eru með fisk tvisvar í viku eða oftar og stór hluti grunnskóla einnig. Auka mætti framboð af hráu grænmeti í leikskólum en framboð af ávöxtum er þar til mikillar fyrirmyndar. Í grunnskólum hefur framboð á hráu grænmeti hins vegar aukist en lítið er um að grunnskólar bjóði upp á ávexti í morgunhléi. 

Vatn stendur börnum til boða á matmálstímum í nær öllum leik- og grunnskólum en taka mætti út nýmjólk með mat í grunnskólum.

Nokkuð ólíkt er á milli skóla, á báðum skólastigum, hvaða matur og drykkir standa börnunum til boða og því getur verið mismunandi hversu hollt fæðið er sem nemendum í sama bæjarfélagi stendur til boða.

Kostnaður
Hvað snertir verð skólamáltíða vorið 2009 þá var meðalverð á skólamáltíð yfir landið 279 kr. Hæsta verð á skólamáltíð í landinu var 500 kr. og í einum skóla var skólamáltíðin nemendum að kostnaðarlausu. Athygli vekur að mismunandi verð er fyrir skólamáltíð innan sama sveitarfélags. Til að jöfnuðar sé gætt á milli íbúa sveitarfélagsins ætti það að vera markmið hvers sveitarfélags að verðskrá allra skólastofnana sé samræmd.

Tekið af vef Lýðheilsustöðvar 13. apríl 2010