Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Byggingar sem ætlaðar eru börnum og ungmennum

Í fréttatilkynningu umhverfisráðuneytisins dags. 21. janúar 2010 segir að vinna sé hafin við að endurskoða byggingarreglugerð. Þar segir að í nýrri byggingarreglugerð standi til að tryggja að byggingar sem ætlaðar eru börnum og ungmennum verði hannaðar með það að markmiði að skapa örugg skilyrði til lífs og þroska, t.d. með því að tryggja vandaða hljóðhönnun í skólaumhverfi.

Umboðsmaður barna fagnar þessu framtaki enda leggur umboðsmaður ríka áherslu á að tryggja beri börnum öruggt og heilsusamlegt umhverfi. Umboðsmaður hefur af þessu tilefni sent formanni nefndar um endurskoðun á byggingarreglugerð bréf þar sem nokkrum athugasemdum er komið á framfæri, m.a. varðandi hljóðvist, skólalóðir, aðgengis- og öryggismál.

Bréfið er svohljóðandi:

Umhverfisráðuneytið
Björn Karlsson,
formaður nefndar um endurskoðun á byggingarreglugerð
Skuggasundi 1
150 Reykjavík

Reykjavík, 15. mars 2010

Efni: Byggingar sem ætlaðar eru börnum og ungmennum

Í fréttatilkynningu umhverfisráðuneytisins dags. 21. janúar 2010 segir að vinna sé hafin við að endurskoða byggingarreglugerð. Þar segir að í nýrri byggingarreglugerð standi til að tryggja það að byggingar sem ætlaðar eru börnum og ungmennum verði hannaðar með það að markmiði að skapa
örugg skilyrði til lífs og þroska, t.d. með því að tryggja vandaða hljóðhönnun í skólaumhverfi.

Umboðsmaður barna fagnar þessu framtaki enda leggur umboðsmaður ríka áherslu á að tryggja beri börnum rétt til öruggs og heilsusamlegs umhverfis. Umboðsmaður vill af þessu tilefni koma nokkrum athugasemdum á framfæri við nefndina.

Samkvæmt grunnskólalögum er grunnskóli vinnustaður nemenda enda liggur fyrir að börn og unglingar dvelja stóran hluta af vökutíma sínum í skólanum, hvort sem um er að ræða leikskóla, grunnskóla eða framhaldsskóla. Starfsdagur barna utan heimilis (skóli, vistun og tómstundir) hefur lengst mikið á undanförnum árum og hafa margir lýst áhyggjum af þeirri þróun. Af þessum sökum er enn nauðsynlegra að tryggja að aðbúnaður barna sé sem allra bestur í þeim byggingum sem þau dvelja svo lengi dags.

Umboðsmaður barna fær reglulega ábendingar og erindi um að skólahúsnæði henti ekki öllum nemendum skólanna. Skólahúsnæði þarf að vera útbúið með hliðsjón af stefnu yfirvalda um skóla án aðgreiningar þar sem fötlun og raskanir nemenda eiga ekki að hamla þeim í að komast um skólahúsnæðið og nýta sér alla þá aðstöðu sem í boði er fyrir nemendur. Með hliðsjón af þessari breyttu stöðu skólanna verður nú að gera ríkari kröfur um öryggi nemenda en áður.

Umboðsmaður barna hefur einnig fengið ábendingar frá fagfólki um að hljóðvist í skólum sé í mörgum tilfellum ekki fullnægjandi. Afleiðingar þessa geta haft í för með sér heyrnarskemmdir, lakari námsárangur og aukna streitu fyrir börn enda eru börn viðkvæmari fyrir hávaða en fullorðnir. Í tillögu til þingsályktunar um bætta hljóðvist og aðgerðir til að draga úr erilshávaða í kennsluhúsnæði (þskj. 850, 549. mál) sem lögð var fyrir Alþingi í apríl 2008 er fjallað um stöðu mála hvað varðar hljóðvist í skólum sem er með öllu óviðunandi. Færð eru rök fyrir nauðsyn þess að gera úrbætur á þessu sviði. Þingsályktunartillagan virðist ekki hafa fengið formlega afgreiðslu í þinginu. Umboðsmaður barna vill því vekja athygli nefndarinnar á ályktuninni.

Þá hefur umboðsmaður barna einnig fengið athugasemdir frá fagfólki um að hönnun skólalóða sé víða ábótavant og að þær taki ekki tillit til þarfa allra notenda, t.d. hvað varðar hvatningu til hreyfingar. Skólalóðir gegna mjög mikilvægu hlutverki í lífi barna og unglinga og er notkun þeirra ekki bundin við skólastarf.

Loks óskar umboðsmaður barna eftir upplýsingum varðandi umboð nefndarinnar, þ.e. hvort það nái til alls húsnæðis sem ætlað er börnum svo sem frístundaheimila, meðferðarheimila, íþróttamannvirkja og fleira.

Að lokum óskar umboðsmaður nefndinni góðs gengis og biður um að fá drög að nýrri byggingarreglugerð send þegar þar að kemur.

Virðingarfyllst,
___________________________________
Margrét María Sigurðardóttir,

umboðsmaður barna