Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Ungt fólk – Utan skóla 2009

Rannsóknir og greining hefur undanfarið ár unnið að greiningu á félagslegri stöðu hópsins 16 til 20 ára sem ekki stundar nám við hefðbundna framhaldsskóla á Íslandi. 

Á föstudaginn í síðustu viku var skýrslan ,,Ungt fólk – Utan skóla“ kynnt í Háskólanum í Reykjavík. 

Niðurstöður leiða í ljós að hagir og líðan ungmenna 16 til 20 ára sem eru aðallega í vinnu eða atvinnulaus eru síðri en þeirra ungmenna sem segjast vera aðallega í námi. Í samantekt skýrslunnar segir meðal annars:

Rannsóknin leiðir í ljós að tengsl ungmenna sem eru aðallega í vinnu eða atvinnulaus, við fjölskyldu sína, eru veikari en þeirra sem eru í skóla og þau virðast frekar upplifa skort á stuðningi frá foreldrum sínum. Einnig virðast ungmenni í vinnu eða án telja sig eiga erfiðara með að fá umhyggju og hlýju frá foreldrum sínum en þau ungmenni sem eru aðallega í námi. Foreldrar virðast líka frekar fylgjast með því hvar og með hverjum þau ungmenni eru sem eru í námi. Rannsóknir Rannsókna & greiningar hafa áður leitt í ljós að stuðningur foreldra, eftirlit og aðhald er veigamikill þáttur í því að tryggja almenna velferð barna og ungmenna. Rannsóknin nú sýnir einnig að þau ungmenni sem eru aðallega í vinnu eða atvinnulaus eru líklegri en þau sem eru aðallega í námi, til að hafa lakara sjálfstraust. Þessi ungmenni virðast frekar upplifa það að hafa engan til að tala við, vera einmana, eiga erfitt með eignast vini, upplifa sig misheppnuð, finnast þau einskis nýt o.fl. Rannsóknin leiðir einnig í ljós að þau ungmenni sem eru aðallega að vinna eða atvinnulaus, virðast líklegri en þau sem eru aðallega í námi til að finna til ýmissa þunglyndiseinkenna á borð við að bresta auðveldlega í grát eða langa til að gráta, vera niðurdregin eða döpur, ekki spennt fyrir að gera neitt, finnast framtíðin vonlaus og hafa hugleitt sjálfsvíg. Margt af þessu á sérstaklega við um ungmenni sem eru yngri en 18 ára og atvinnulaus. Einnig er vert að benda á að þau ungmenni sem eru yngri en 18 ára og atvinnulaus eru líklegri en önnur ungmenni til að upplifa það að finnast allir hafa brugðist sér. Þau ungmenni sem eru aðallega í vinnu eða atvinnulaus, virðast jafnframt telja andlega og líkamlega heilsu sína lakari en þau ungmenni sem eru í námi.

Umboðsmaður barna tekur undir með Rannsóknum og greiningu og vonar að niðurstöðurnar megi verða til þess að aukin verði áhersla á að bæta hagi og líðan þess hóps sem stendur utan skóla á þessum aldri.

Hægt er að nálgast skýrsluna á vef Rannsókna og greininga.