Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Netnotkun barna og unglinga

Í nýrri könnun á netnotkun barna á aldrinum níu til sextán ára sögðust 77% þeirra vera í leikjum á netinu þegar þau voru spurð að því hvað þau gerðu helst á netinu.

Könnunin var gerð á vegum SAFT-verkefnisins (Samfélag, fjölskylda og tækni), en eitt af helstu viðfangsefnum þess er að kortleggja notkun barna og unglinga á netinu og öðrum skyldum miðlum. Könnunin var gerð á fyrri hluta ársins í samstarfi Heimilis og skóla, Capacent Gallup og Lýðheilsustöðvar.

77% barnanna sögðust nota netið til að vera í leikjum, 66,4% til að senda skyndiskilaboð (msn), 41,4% til að hlaða niður tónlist, 40% til að vinna heimaverkefni, 35,8% til að vafra til gamans, 32,4% til að senda og sækja tölvupóst, 25,4% til að ná í aðrar upplýsingar en fyrir skólaverkefni og 24,3% til að skoða fréttasíður.

Þegar foreldrar voru spurðir hvað þeir teldu að barnið sitt gerði á netinu þá nefndu tæp 66% að barnið spilaði tölvuleiki á netinu og tæp 30% að það sendi skilaboð á MSN/Skype.

Könnunin leiddi ennfremur í ljós að 55% barna spila tölvuleiki að jafnaði í minna en klukkustund í einu en 31% í eina til tvær klukkustundir. Flest börn spila ein þegar þau eru í leikjum á netinu, eða 66,4%. Um 26% spila leiki með fjölskyldu og vinum í sama herbergi en 24,2% með fjölskyldu og vinum á netinu.

Könnunin bendir til þess að foreldrar setji í auknum mæli reglur um tölvunotkun barna. Um 51% foreldra segjast hafa frekar mikið eftirlit með tölvuleikjanotkun barnsins og 28% segjast hafa mjög mikið eftirlit með tölvuleikjanotkuninni.

Sjá nánar í fréttatilkynningu frá SAFT.