Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Ungmennaráðin vekja athygli á Barnasáttmálanum í Kringlunni

Bssth 20 Ara KringlanBarnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, útbreiddasti mannréttindasáttmáli heims, verður 20 ára föstudaginn 20. nóvember. Í tilefni þess hafa ungmennaráð umboðsmanns barna, Barnaheilla og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) sameinað krafta sína en þau munu halda mikilvægi sáttmálans á lofti með fjölbreyttum hætti í afmælisvikunni. Hún hófst í gær, sunnudag, og stendur fram á föstudag.

Meðlimir ungmennaráðanna hófu afmælisvikuna á því að dreifa upplýsingabæklingum um Barnasáttmálann til gesta og gangandi í Kringlunni í gær og ræða um sáttmálann við fróðleiksfúsa, en í Barnasáttmálanum er einmitt kveðið á um að hann skuli kynna með virkum hætti.

Í vikunni munu ungmennin síðan koma víða við en ásamt því að vekja almenna athygli á Barnasáttmálanum munu þau funda með þingmönnum, skrifa greinar í Fréttablaðið og afhenda ráðamönnum sameiginlega ályktun sína um hagsmuni barna og unglinga.

Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, fyrir utan tvö, hafa fullgilt samninginn. Barnasáttmálinn hefur stuðlað að ýmsum mikilvægum réttindabótum fyrir börn frá því að Ísland fullgilti hann árið 1992.

Barnasáttmálinn er mjög mikilvæg stoð fyrir allt starf umboðsmanns barna. Hér er nánar fjallað um hann.