Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frístundaheimili ÍTR héldu upp á afmæli Barnasáttmálans

Umboðsmaður barna vill vekja athygli á góðu framtaki Frístundaheimila ÍTR. Í frétt á síðu Reykjavíkurborgar dags. 20.11.09 segir:

Frístundaheimili ÍTR, Umboðsmaður barna og Unicef hafa tekið höndum saman í tengslum við 20 ára afmæli barnasáttmála SÞ. Aðilar frá umboðsmanni barna og Unicef hafa heimsótt frístundaheimilin í Reykjavík og frætt börnin um barnasáttmálann og um almenn réttindi barna.

Börn á frístundaheimilum ÍTR hafa unnið að verkefnum í tengslum við afmælið síðustu tvær vikur. Verkefnin eru mismunandi eftir hverfum en á meðal þeirra verkefni sem voru unnin er afmæliskaka úr pappamassa, listaverk og réttindaspjöld.

Börn frá Frístundamiðstöðinni Kampi fóru í réttindagöngu frá Lækjartorgi niður að Ráðhúsi kl. 15:00 á föstudag. Þar afhenti hópurinn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra eintak af barnasáttmálanum.  

Einnig hafa börnin í Frístundamiðstöðinni Frostaskjóli sent fjölmiðlum og stjórnmálamönnum áskorun um að fjalla meira um börn og málefni þeirra.

Öll frístundaheimili í Grafarvogi tóku þátt í umræðu um barnasáttmálann sem og að gera sameiginlegt listaverk úr átta hlutum sem málaðir voru út frá völdum greinum sáttmálans. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur þann 20. nóvember árið 1989.