Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Ungt fólk 2009

Samkvæmt rannsókninni Ungt fólk 2009 sem gerð er á vegum menntamálaráðuneytisins líður íslenskum börnum betur í dag en í góðærinu fyrir þremur árum. Skýrslan byggist á umfangsmiklum spurningalistum sem lagðir voru fyrir grunnskólanemendur í febrúar 2009. Svörunin er yfir 85 prósent.

Skýrar vísbendingar eru um að íslenskum börnum líði betur í ár en fyrir þremur árum. Þessar niðurstöður má draga af umfangsmikilli könnun á hegðun og líðan barna í fimmta til tíunda bekk grunnskóla. Börn virðast eyða meiri tíma með foreldrum sínum og stuðningur og eftirlit foreldra með börnum og unglingum hefur aukist. Við erum alltaf að leita að hinu neikvæða en í rannsókninni okkar eru einungis jákvæðar vísbendingar um hegðun og líðan barna,” segir Álfgeir Logi Kristjánsson, einn höfunda rannsóknarinnar. Í rannsókninni bendir ekkert til þess að dregið hafi úr tómstundaiðkun barna. „Mikið hefur verið talað um svokölluð kreppuáhrif, að kreppan hafi vond áhrif á líðan barna, en við sjáum þau ekki birtast í þessari rannsókn. Þvert á móti finnst börnum greinilega að haldið sé fastar utan um þau í dag. Fleiri upplifðu óöryggi í þenslunni," segir hann m.a. í viðtali við Fréttablaðið.