Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Hvað er skólaráð?

Skylt er að starfrækja skólaráð við hvern grunnskóla og hefur það mikilvægu hlutverki að gegna sem samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélagsins um skólahald. Skólastjóri ber ábyrgð á stofnun skólaráðs og stýrir starfi þess, sem skilgreint er í 8. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008. Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans. Skólaráð fjallar um skólanámskrá skólans, árlega starfsáætlun, rekstraráætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið. Skólaráð skal fá til umsagnar áætlanir um fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær er tekin. Skólaráð fylgist almennt með öryggi, aðbúnaði og almennri velferð nemenda. Skólanefnd getur með samþykki sveitarstjórnar falið skólaráðum einstakra skóla ákveðin verkefni þessu til viðbótar.

Í 2. gr. reglugerðar nr. 1157/2008 um skólaráð við grunnskóla er fjallað nánar um verkefni skólaráðs. Skólaráð:
- fjallar um skólanámskrá, rekstraráætlun, starfsáætlun og aðrar áætlanir um skóla­starfið,
- fjallar um fyrirhugaðar meiriháttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla og gefur umsögn áður en endanlegar ákvarðanir um þær eru teknar,
- tekur þátt í að móta stefnu og sérkenni skóla og tengsl hans við grenndar­samfélagið,
- fylgist með öryggi, húsnæði, aðstöðu, aðbúnaði og almennri velferð nemenda,
- fjallar um skólareglur, umgengnishætti í skólanum,
- fjallar um erindi frá skólanefnd sveitarfélags, foreldrafélagi, kennarafundi, al­menn­um starfsmannafundi, nemendafélagi, einstaklingum, mennta­mála­ráðuneyti,  öðrum aðilum varðandi málefni sem talin eru upp í þessari málsgrein og veitir umsögn sé þess óskað,
- tekur þátt í öðrum verkefnum á vegum skólanefndar að fengnu samþykki sveitar­stjórnar.

Skólaráð fjallar ekki um málefni einstakra nemenda, foreldra eða starfsfólks skóla.

Skólaráð skal skipað níu einstaklingum til tveggja ára í senn. Í skólaráði skulu eiga sæti
- skólastjóri
- tveir fulltrúar kennara, sem kosnir eru á kennarafundi
- einn fulltrúi annars starfsfólks skólans, sem kosinn skal á starfsmannafundi
- tveir fulltrúar nemenda, sem skulu kosnir samkvæmt starfsreglum nemendafélags
- tveir fulltrúar foreldra, sem skulu kosnir samkvæmt starfsregkum foreldrafélags
- einn fulltrúi grenndarsamfélags eða viðbótarfulltrúi úr hópi foreldra, sem skal valinn úr hópi foreldra af skólaráði sjálfu

Skólastjóri skal boða til sameiginlegs fundar skólaráðs og stjórnar nemendafélags a.m.k. einu sinni á ári. Ráðherra setur reglugerð um starfsemi skólaráða í samráði við samtök sveitarfélaga, kennara og foreldra. Í athugasemdum við 30. gr. grunnskólalaga sem fjallar um skólareglur segir að skólaráð skuli taka þátt í gerð skólareglna.

Nánar er fjallað um skólaráð í reglugerð nr. 1157/2008 um skólaráð við grunnskóla.