Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Sjónarmið barna og lýðræði í leikskólastarfi

RannUng og Háskólaútgáfan hafa gefið út bókina Sjónarmið barna og lýðræði í leikskólastarfi. Ritstjórar eru Jóhanna Einarsdóttir prófessor og Bryndís Garðarsdóttir lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Með rannsóknum á þroska og námi barna hefur verið sýnt fram á að ung börn búa yfir mikilli getu og eru fær um að láta í ljós skoðanir sínar á málefnum sem þau varða. Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er viðurkenndur réttur barna til að hafa áhrif á tilveru sína og að á þau sé hlustað. Þetta hefur leitt til aukinnar áherslu á lýðræði í skólastarfi þar sem raddir barna hafi hljómgrunn og virðing sé borin fyrir sjónarmiðum þeirra og hæfni til að taka ákvarðanir.

Meginumfjöllunarefni þessarar bókar er sjónarmið barna og lýðræðislegir starfshættir í leikskólastarfi. Sérfræðingar í málefnum barna og leikskóla fjalla um rannsóknir þar sem sjónarmið og réttindi barna eru höfð að leiðarljósi. Bókin skiptist í átta kafla og í upphafi hvers kafla eru hugleiðingar leikskólabarna um ýmsa þætti sem snerta daglegt líf þeirra. Margar þessar hugleiðingar varða þætti sem gjarnan hefur verið talið að börn hafi ekki áhuga á eða yfirhöfuð hugsi ekki um. Vangaveltur barnanna sýna glögglega að þau velta fyrir sér þjóðfélagsmálum, lífríkinu, íslensku máli og daglegum samskiptum fólks.

Bókin er ætluð kennaranemum, kennurum í leik- og grunnskólum, stefnumótunaraðilum og öðrum sem láta sig varða menntun yngstu borgaranna

Kaflahöfundar eru: Jóhanna Einarsdóttir, Sue Dockett, Anna Magnea Hreinsdóttir, Þórdís Þórðardóttir og Guðný Guðbjörnsdóttir, Gunnar E. Finnbogason, Kristín Karlsdóttir og Bryndís Garðarsdóttir og Hildur Skarphéðinsdóttir. Formála ritar Margrét María Sigurðardóttir Umboðsmaður barna.

Bókin fæst í Bóksölu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og hjá RannUng - sigridus@hi.is s: 5255328


Sjónarmið barna og lýðræði í leikskólastarfi