Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Starfstími barna í leik- og grunnskólum

Reglulega berast umboðsmanni barna athugasemdir vegna langrar viðveru barna í leik- og grunnskólum. Meðal annars hefur borist ályktun frá Kennarasambandi Íslands þar sem því er beint til umboðsmanns barna að koma á samræðum í samfélaginu um hvernig hagsmunum barna er best fyrir komið. Starfsdagur barna (skóli, vistun, tómstundir, heimanám) hafi lengst óhóflega mikið þannig að grípa þurfi til aðgerða svo þau fái notið bernsku sinnar og meiri samskipta við foreldra.

Þá hefur farið fram nokkur umfjöllun í fjölmiðlum um langan viðverutíma barna í leikskólum þar sem  m.a. leikskólastjórar hafa lýst yfir áhyggjum sínum á langri viðveru leikskólabarna. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands, Börn í leikskólum í desember 2007, heldur viðverutími barna í leikskólum áfram að lengjast en 88% allra barna í leikskólum dvelji nú í 7 stundir eða lengur daglega. Er hér átt við meðaltal en vitað er að börn dvelja mun lengur í leikskóla daglega, eða allt að 9 klst. á dag.

Í ljósi þessa hefur umboðsmaður barna ritað menntamálaráðherra bréf þar sem bent er á mikilvægi þess að ólíkir aðilar innan samfélagsins komi að þessu máli með það að markmiði að hagsmunir barna verði í fyrirrúmi sbr. 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Félagsmálaráðherra var sent samrit af bréfinu auk þess sem Kennarasamband Íslands, Félag íslenskra leikskólakennara, Samtök atvinnulífsins, Heimili og skóli og Samband íslenskra sveitarfélaga fengu sent afrit.