Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Skuldajöfnun barnabóta

Umboðsmanni barna berast ítrekað athugasemdir varðandi greiðslu barnabóta. Sérstaklega hefur borið á athugasemdum þegar barnabótum er skuldajafnað upp í opinber gjöld. Barnabótakerfið á Íslandi er hluti af skattkerfinu en ekki félagslega kerfinu líkt og greiðsla meðlags og barnalífeyris.

Markmið barnabóta er að styðja við barnafjölskyldur í landinu og jafna stöðu þeirra. Þegar barnabætur eru teknar upp í vangoldin opinber gjöld, með jafn víðtækum hætti og fram kemur í reglugerð nr. 555/2004,  má vera ljóst að slíkt hefur neikvæð áhrif á lífsgæði barna þvert á tilgang og markmið barnabótakerfisins.  

Umboðsmaður barna hefur ritað fjármálaráðuneytinu bréf þar sem hann bendir á að hann telji eðlilegra að barnabætur séu hluti af félagslega kerfinu og tryggi þannig fjölskyldum þann stuðning sem þeim er ætlaður frekar en þær séu hluti af skattkerfinu. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að þessi mál verði endurskoðuð og þá sérstaklega með hliðsjón af því að í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við er þessu víða öðruvísi háttað og ekki hægt að skuldajafna  með þeim hætti sem hér tíðkast.

Sjá hér bréf umboðsmanns barna til fjármálaráðuneytisins, dags. 24. apríl á PDF formi.