Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Réttur barna sem getin eru með tæknifrjóvgun til upplýsinga um uppruna sinn

Í Morgunblaðiðnu sunnudaginn 6. apríl 2008 birtist opið bréf til umboðsmanns barna frá Stellu Gróu Óskarsdóttur þar sem hún veltir fyrir sér rétti barna, sem getin eru í  tæknifrjóvgun með gjafasæði eða gjafaeggi, til þess að fá upplýsingar um uppruna sinn. Stella Gróa spyr hvort þessi börn séu svipt þeim réttindum á kerfisbundinn hátt sem hún telur önnur börn njóta njóta skv. barnalögum nr. 76/2003 (sbr. 1., 5. og 6. gr.) og lögum um ættleiðingar nr. 31/1999 (sbr. 26. gr.). Jafnframt spyr hún hvort dómsmálaráðuneytið haldi utan um upplýsingar um kynforeldra þessara barna.

Stella Gróa hefur óskað eftir að svar umboðsamnns barna verði birt í Morgunblaðinu en vegna lengdartakmarkana blaðsins er ekki hægt að verða við því.

Í svari sínu til Stellu Gróu, dags. 11. apríl 2008, segir umboðsmaður barna:

Um tæknifrjóvganir á Íslandi gilda lög nr. 55/1996 um tæknifrjóvgun. Þau tóku gildi 1. júní 1996 en fyrir þann tíma voru í gildi ákveðnar reglur um framkvæmd enda hefur tæknisæðing verið framkvæmd hér á landi frá árinu 1980 og glasafrjóvgun frá 1991.

Í 4. gr. laganna er fjallað um nafnleynd kynfrumugefanda:

4. gr. Læknir, sem annast meðferð, skal velja viðeigandi gjafa.
Óski gjafi eftir nafnleynd er heilbrigðisstarfsfólki skylt að tryggja að hún verði virt. Í þeim tilvikum má hvorki veita gjafa upplýsingar um parið sem fær gjafakynfrumur eða um barnið né veita parinu eða barninu upplýsingar um gjafann.
 Óski gjafi ekki eftir nafnleynd skal stofnunin varðveita upplýsingar um hann í sérstakri skrá. Verði til barn vegna kynfrumugjafarinnar skal varðveita upplýsingar um það og parið sem fékk gjafakynfrumurnar í sömu skrá.
Barnið, sem verður til vegna kynfrumugjafar þar sem gjafi óskar ekki eftir nafnleynd, getur er það nær 18 ára aldri óskað eftir aðgangi að skrá skv. 3. mgr. til að fá upplýsingar um nafn gjafans. Nú fær barn upplýsingar um kynfrumugjafa hjá stofnuninni og ber henni þá eins fljótt og auðið er að tilkynna honum um upplýsingagjöfina.”

Samkvæmt ofangreindu er ljóst að það er gjafinn sem tekur ákvörðun um nafnleynd og er það viðkomandi heilbrigðisstofnun sem heldur utan um þessar upplýsingar en ekki dómsmálaráðuneytið.

Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpinu til laga um tæknifrjóvgun segir þetta um nafnleynd kynfrumugjafa:

„Nafnleynd sæðisgjafa er viðkvæm og umdeild. Svipað á við um eggfrumugjafa. Eggfrumugjafir hafa ekki þekkst fram til síðustu ára en sæðisgjöf hefur viðgengist í talsverðum mæli um alllangt skeið. Börn, sem getin eru með gjafasæði í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku á síðustu 20 - 30 árum, skipta tugum þúsunda.
 Í flestum löndum eru reglur á þann veg að sæðisgjafa er tryggð nafnleynd, auk þess sem hann fær enga vitneskju um sæðisþega. Undantekningu frá þessari reglu er þó að finna í Svíþjóð þar sem barn, sem getið er með gjafasæði, á rétt á upplýsingum um gjafann þegar það hefur aldur og þroska til. Þar sem eggfrumugjöf hefur tíðkast hafa gilt hliðstæðar reglur um nafnleynd. Ekkert liggur fyrir um að það fyrirkomulag að viðhafa nafnleynd hafi gefist illa. Raunar er afar lítið um kannanir á þessum börnum eftir að þau hafa komist á legg, af skiljanlegum ástæðum. Svo virðist sem bæði foreldrar og börn hafi leitt hjá sér þá miklu umræðu sem orðið hefur um þessi mál í flestum löndum.
Sú skoðun hefur komið fram og vaxið fylgi á síðari árum að þessi börn hafi líkt og önnur börn náttúrulega þörf til að rekja og þekkja líffræðilegan uppruna sinn. Á þessari skoðun byggist krafan um að það skuli viðurkennt sem mannréttindi að fá vitneskju um líffræðilega foreldra. Hugmyndinni um að æskilegt sé að þekkja hinar líffræðilegu rætur sínar hefur lítt verið andmælt en þó hafa komið fram gagnrýnisraddir varðandi það að skapa óvissu meðal barna og eftirvæntingu sem síðan reynist erfitt að fullnægja. Í meginreglum sérfræðinganefndar Evrópuráðsins um tæknifrjóvgun kemur fram að mannréttindasáttmáli Evrópu verður ekki túlkaður svo að hann styðji þessa kröfu en hann hafni henni ekki heldur.
 Ekki verður talið tímabært að setja í lög ákvæði er tryggi börnum, sem getin eru með gjafakynfrumum, rétt til vitneskju um líffræðilegt faðerni eða móðerni.

Óskað var eftir áliti þáverandi umboðsmanns barna til frumvarpsins og sendi hann m.a. eftirfarandi athugasemdir til heilbrigðisnefndar Alþingis 25. september 1995: 

„Ættleitt barn, kynforeldrar þess og kjörforeldrar hafa ávallt óheftan aðgang að gögnum og upplýsingum, sem varða ættleiðinguna, hjá dómsmálaráðuneytinu, þrátt fyrir að þessi regla sé ekki beinlínis orðuð í ættleiðingarlögunum, sem auðvitað ætti að vera. Þessi réttur kemur hins vegar skýrlega fram í 15. gr. stjórnsýslulaga, þar sem segir að aðili máls eigi rétt á að kynna sér skjöl og önnur gögn sem varða mál hans.
Mín skoðun er sú að þar sem ættleitt barn (og sömuleiðis barn, sem tekið er í fóstur, sbr. d. lið 1. mgr. 31. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992) á rétt á að vita um uppruna sinn, þekkja foreldra sína, eftir því sem framast er unnt, þá eigi barn, sem getið er með gjafakynfrumu, sama rétt. Annað gengur að mínu áliti í berhögg við 1. mgr. 2. gr. fyrrnefnds samnings og hina almennu jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, sem er að finna í 1. mgr. 65. gr. hennar, sbr. stjórnskipunarlög nr. 97/1995.
Með skírskotun til alls þess, sem að framan greinir...., er það mín afdráttarlausa skoðun að með lögum eigi að tryggja barni, sem getið er með gjafakynfrumu, ótvíræðan rétt til að fá að vita hver raunverulegur uppruni þess er, eftir því sem framast er unnt. Þannig verður velferð barnsins best tryggð til framtíðar.
Réttur barns til að vita hvaðan það kemur, hver er líffræðilegur faðir þess eða móðir, á að mínum dómi að ganga framar rétti foreldra til að halda slíku leyndu fyrir barninu. Skylduna til að upplýsa barnið um raunverulegan uppruna þess verður að legggja á herðar foreldrum, þegar þeir telja barnið hafa öðlast nægilegan þroska til að skila þessar aðstæður.
 Ég legg því til að 4. gr. frumvarps til laga um tæknifrjóvgun verði breytt á þann veg, að ákvæði 2. mgr., sem ætlað er að tryggja kynfrumugjafa nafnleynd, verði fellt brott. Í stað þess verði réttur barns, sem getið er með gjafakynfrumu, til að vita uppruna sinn, virtur og lögfestur.”

Umboðsmaður barna, Margrét María Sigurðardóttir, tekur undir þessi orð forvera síns og telur afar mikilvægt að tryggja þessum börnum líkt og öðrum rétt til upplýsinga um uppruna sinn. Umboðsmaður fagnar ábendingunni og telur mikilvægt að umræða fari fram í samfélaginu um þetta mikilvæga en jafnframt flókna viðfangsefni. Viljir þú ræða þessi mál nánar er þér velkomið að hringja eða koma á skrifstofu umboðsmanns barna. 
 

Hér er svar umboðsmanns barna á PDF formi.