Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Dagur leikskólans

Dagur leikskólans verður haldinn hátíðlegur í fjórða sinn 6. febrúar. Þar sem dagurinn er á sunnudegi munu leikskólar landsins halda daginn hátíðlegan föstudaginn 4. febrúar.

Á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins er vakin athygli á að unnt er að fylgjast með umræðu um dag leikskólans á facebook  og á vef Félags leikskólakennara er að finna hugmyndabanka um atburði sem haldnir hafa verið á degi leikskólans undanfarin ár.

Hér að neðan er grein um leikskólastarf eftir Kristínu Helgadóttur, leikskólastjóri Holti í Reykjanesbæ. Greinin birtist íVíkurfréttum 3. febrúar 2011..

Í leikskóla er gaman
Þetta eru orð að sönnu, í leikskólanum á að ríkja gleði og gaman.  Í mínum huga er gleði  upphaf og endir alls starfs sem fram fer í leikskóla. Leikskólinn er stór hluti af tilveru fjölmargra barna og fjölskyldna þeirra.  Leikskólinn er viðurkenndur sem fyrsta skólastig barnsins og mikilvægt fyrir hvern einstakling að upplifa leikskólann sem hluta af tilveru sinni. 

Á bernskuárum er leikur lífstjáning barns og mikilvægasta náms- og þroskaleið þess. Leikur er hornsteinn leikskólastarfsins og lífstjáning og gleðigjafi barns. Í leik lærir barn margt sem enginn getur kennt því. Í leik felst því mikið sjálfsnám, honum fylgir bæði gaman og alvara. Reynsluheimur barnsins endurspeglast í leiknum. Til þess að leikurinn geti þróast og eflst þarf barn upplifun, hugmyndaflug og efnivið. Hver leikskóli reynir að skapa barni nægan efnivið sem ýtir undir hugmyndaflug gleði og ánægju þess. Leikskólakennari þarf að vera næmur á andlegar og líkamlegar þarfir barnsins og fylgjast gaumgæfilega með börnum í leik. Þannig kynnist hann börnunum betur og getur áttað sig á hvað leikurinn kann að endurspegla.  Það krefst fagmennsku að skapa börnum skilyrði til leiks og þroska.  Börn dvelja að öllu jöfnu lengur við leik og störf ef leikskólakennari er nálægur. Návist kennarans veitir barni öryggi og stuðning. Með þátttöku í barnahópi — stórum eða litlum — öðlast barn margþætta félagslega reynslu. Það þarf að finna að það hafi hlutverki að gegna og tilheyri hópnum. Barn á að fá margvísleg tækifæri til að njóta samverustunda og gleðjast með öðrum. 

Leikskólakennarar í Reykjanesbæ eru mjög metnaðarfullir og leikskólarnir faglega reknir, þar er leitast við af fremsta megni að efla hvern einstakling og ýta undir hugmyndaflug barna.  Við leikskóla Reykjanesbæjar starfar áhugasamur hópur kennara sem vill leggja sitt að mörkum til að efla samfélagið okkar. Skila út í samfélagið áhugasömu ungu fólki með réttlætiskennd og góð gildi.  Það er ekki sjálfgefið að leikskólar séu vel reknir og góðir skólar, því fer fjarri. Til að hægt sé að tala um góðan skóla þarf að vera þar fyrir áhugasamir, umhyggjusamir og vel ígrundandi kennarar.  Í hverjum skóla starfar fólk sem endurspeglar starf og gæði skólans. Við þurfum í samfélaginu okkar að hlúa vel að yngsta aldurshópnum og á krepputímum er enn meiri þörf en annars að leggja alúð við rekstur leik og grunnskóla.  Kennarar skóla þurfa að leggja mikið á sig til halda uppi góðu skólastarfi og það ber að meta.  Samfélagið þarf líka að leggja sitt að mörkum til að góðir skólar séu til staðar og ekki síður yfirstjórn bæjarfélagsins.  Dagur leikskólans verður haldinn hátíðlegur í fjórða sinn sunnudaginn 6. febrúar 2011. Dagurinn er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, Menntamálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla.  Þann 6.febrúar 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín.  Markmið með verkefninu er að beina sjónum að leikskólanum og því gróskumikla og mikilvæga starfi sem þar fer fram, hvetja til aukinnar umræðu um leikskólastarf og gera það sýnilegra.  Þar sem dagurinn er á sunnudegi munu leikskólar landsins halda daginn hátíðlegan föstudaginn 4. febrúar.

Í tilefni af Degi leikskólans ætlum við í leikskólanum Holti að opna skólann okkar og bjóða bæjarbúum að koma og njóta leikskólastarfsins með börnum og kennurum.  Það verður opið hús föstudaginn 4.feb kl.10:00-11:00 þar sem stöðvavinna verður í gangi og kynning á starfi í stöðvavinnu.  Þær stöðvar sem verða í boði eru: -ljós og skuggar, -listasmiðja, -kubbasmiðja, -móasmiðja/gönguferð, -vísindakrókur, -leir, hlutverkakrókur.  Við vonumst til að sjá sem flesta koma og kynna sér það fjölbreytta starf sem fram fer í leikskólanum.

Kristín Helgadóttir, leikskólastjóri Holti