Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Árleg viðurkenning Barnaheilla veitt þremur leikstjórum

Barnaheill veita árlega viðurkenningu til einstaklinga eða stofnana fyrir sérstakt framlag í þágu barna og réttinda þeirra. Viðurkenningin var veitt í dag, á afmælisdegi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, 20. nóvember, en þann dag árið 1989 var hann samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Í ár hlutu viðurkenninguna leikstjórar þriggja kvikmynda, þau Guðný Halldórsdóttir fyrir kvikmyndina Veðramót, Ragnar Bragason fyrir kvikmyndina Börn og þeir Bergsteinn Björgúlfsson og Ari Alexander Ergis Magnússon fyrir kvikmyndina Syndir feðranna.

Viðurkenning Barnaheilla í ár er veitt fyrir að vekja athygli á málefnum barna sem oft fara hljótt í umræðunni í íslensku samfélagi. Að mati Barnaheilla taka allar þessar kvikmyndir á viðkvæmum málum sem snerta börn, réttindi þeirra og aðbúnað. Þær vekja upp áleitnar spurningar um samfélag okkar fyrr og nú og varpa ljósi á afleitar aðstæður barna og áhrifin sem ofbeldi hefur á líf þeirra.