Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Rannsóknastofa í menntunarfræðum ungra barna stofnuð

Í gær var undirritaður samningur um stofnun rannsóknastofu í menntunarfræðum ungra barna við Kennaraháskóla Íslands. Samstarfs- og stuðningsaðilar rannsóknastofunnar eru Kennarasamband Íslands, Reykjavíkurborg og Umboðsmaður barna. Forstöðumaður rannsóknastofunnar er Jóhanna Einarsdóttir prófessor við Kennaraháskóla Íslands.

Menntunarfræði ungra barna er það fræðasvið sem fjallar um börn, aðstæður þeirra og nám frá fæðingu til átta ára. Aðalmarkmið rannsóknastofunnar er að auka og efla rannsóknir á menntun og uppeldi ungra barna og vera vettvangur fræðaþróunar á því sviði.

Rannsóknarstofunni er ætlað það hlutverk að eiga frumkvæði að og sinna rannsóknum, miðla þekkingu og kynna niðurstöður rannsókna á sviðinu m.a. með útgáfu fræðigreina og fræðirita og með fyrirlestrahaldi.

Með stofnun rannsóknastofunnar er komið til móts við breyttar aðstæður í málefnum ungra barna. Flest börn á aldrinum 3-5 ára sækja nú leikskóla og aukin þekking á því hvernig börn læra og þroskast hefur opnað augu fólks fyrir mikilvægi fyrstu æviáranna og menntun ungra barna. Á vegum rannsóknastofunnar taka vísindamenn og fagfólk höndum saman um að vinna rannsóknir og sinna brýnum og aðkallandi málefnum í íslensku samfélagi.

Á myndinni undirrita Ingibjörg Rafnar, umboðsmaður barna, Elna Katrín Jónsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands, Ólafur Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður leikskólaráðs Reykjavíkurborgar samning um stofnun Rannsóknastofu í menntunarfræðum ungra barna í gær.