Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Börn og umferðin

Umboðsmaður barna birtir hér grein eftir Hildi Tryggvadóttur Flóvenz starfsmann hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg um helstu atriði er varða öryggi barna í umferðinni.  

Börn og umferðin

Nú þegar sumarið er formlega gengið í garð fjölgar börnum í umferðinni bæði gangandi og á hjólum, hjólabrettum, línuskautum og hlaupahjólum.
 
Margt þarf að hafa í huga þegar börn fara út í umferðina. Börn hafa ekki náð fullkomnu valdi á grófhreyfingum sínum og jafnvægið er ekki fullþroskað. Einnig vantar samhæfingu í hreyfingar og þau hafa takmarkaða hliðarsýn. Að auki hafa þau litla reynslu af umferðinni. Þó þau kunni umferðarreglurnar þá er ýmislegt sem þau eiga erfiðara með í umferðinni en fullorðnir, þau ekki skynja ekki hraða og fjarlægð ökutækja sem nálgast þau og geta átt erfitt með að átta sig á því úr hvaða átt hljóð koma. Börn eru oft upptekin við leik og geta gleymt sér auk þess sem þau verða oft upptekin af smáatriðum og sjá ekki heildarmynd umferðarinnar. Einnig eiga þau til að taka ákvarðanir í skyndi án þess að hugsa um afleiðingarnar. Þessi atriði verður að hafa í huga þegar barnið fer út í umferðina. Mikilvægt er að kenna þeim hvaða reglur gilda og hvernig á að haga sér í umferðinni. Best er að kenna þeim smátt og smátt og láta þau vita hvað er hættulegt og af hverju.
 
Mörg börn ferðast um á hjóli þegar vorar. Þegar haldið er út í umferðina á hjóli er ýmislegt sem þarf að hafa í huga. Nauðsynlegt er að hafa hjálm og að hjólið sé í góðu lagi. Bremsur þurfa að vera í lagi bæði á fram- og afturhjóli, bjalla á að vera til staðar ásamt ljósum og glitaugum að framan og aftan. Einnig á að vera keðjuhlíf, teinaglit í teinum og glitauga á fótstigum. Þó yngstu börnin hjóli ekki innan um umferð er æskilegt að hjól þeirra séu eins búin og þeirra fullorðnu. Börn yngri en 12 ára ættu ekki að hjóla á götum eða í umferðinni, aðeins á gangstétt, göngu- og hjólreiðastígum. Mikilvægt er fyrir foreldra að brýna fyrir börnum sínum að hjóla aðeins á öruggum svæðum. Þegar börn hafa náð aldri og þroska til að hjóla í umferðinni er mikilvægt að gera þeim grein fyrir þeim hættum sem fylgir því að hjóla í umferðinni. Reiða má börn á hjóli til 7 ára aldurs. Séu börn reidd eiga þau að vera í þar til gerðu sæti með beltum og hjálm. Yngri en 15 ára mega ekki reiða börn á hjólum.
 
Val á hjóli
Þegar velja á hjól fyrir börn eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga. Í fyrsta lagi skal hjólið vera í réttri stærð fyrir barnið. Þegar börn byrja að hjóla er miðað við að þau nái með báðum fótum samtímis niður á jörð. Ekki er mælt með að börn yngir en 5 ára séu á tvíhjóli. Þegar barn fær sitt fyrsta tvíhjól er mikilvægt að kenna því að haga sér á hjóli og vera viss um að það þekki umferðarreglurnar. Áður en barnið fer sjálft að hjóla er mikilvægt að vera viss um að það hafi fullt jafnvægi og geti bremsað af öryggi. Ekki er mælt með því að nota hjálpardekk þar sem börn geta þá náð meiri hraða á hjólinu en þau ráða við. Þegar hjól eru með hjálpardekkjum eiga börn erfiðara með að átta sig á breidd hjólsins og er því hætta á hjálpardekkið fari út fyrir gangstéttarbrún og barnið dettur. Á hjólum yngir barna er einnig mikilvægt að bæði séu hand- og fótbremsur og hemlarnir séu bæði að framan og aftan. Einnig er mælt með því að settar séu appelsínugular veifur á hjól yngstu barnanna svo ökumenn sjái þau betur.
 
Val á hjálmi
Við val á hjálmi er mikilvægt að hafa huga hvort hjálmurinn sé CE merktur en það merkir að hjálmurinn uppfylli öryggiskröfur. Máta þarf hjálma áður en þeir eru keyptir og ganga úr skugga um að þeir passi vel. Hjálmurinn á að vernda enni, hnakka, gagnaugu og koll. Hjálmurinn má hvorki hindra sjón né draga úr heyrn og á að vera mjúkur næst höfðinu, léttur og með loftopum.
 
Rétt notkun á hjálmi skiptir sköpum. Hjálmur sem ekki er notaður rétt veitir falskt öryggi. Hjálmurinn á að sitja beint ofan á höfðinu, ekki of framarlega og ekki of aftarlegar. Böndin þurfa að vera rétt stillt þannig að eyrað lendi í miðju V-forminu og spennan á hliðinni en ekki beint undir hökunni. Bandið skal ekki vera lausara en það að einn fingur komist á milli bands og höku. Ekki má líma merki eða mála á hjálma því þá getur höggþol þeirra minnkað. Hjálma á að taka af sér þegar hætt er að hjóla. Mikilvægt er að brýna fyrir börnum að hjálma má ekki nota í leiktækjum. Það getur valdið því að þau festist í leiktækjum. 
Hlaupahjól, línuskautar og hjólabretti 
Hlaupahjól, línuskautar og hjólabretti eru vinsæl farartæki eins og hjólið þegar fer að vora. Þegar hlaupahjól, línuskautar og hjólabretti eru valin fyrir börn er mikilvægt að hafa í huga að mjúk dekk eru betri þar sem þau draga úr höggum og eru stöðugri. Öryggisbúnaður er mikilvægur á þessum farartækjum. Í öllum tilfellum skal vera með hjálm. Til eru sérstakir hjálmar fyrir hjólabretti og línuskauta. Hjólabrettahjálmar ná lengra niður á eyrun en hefðbundnir hjólahjálmar og línskautahjálmar eru með aukavörn að aftan þar sem algengt er að fólk detti aftur fyrir sig á línuskautum. Þó er hægt að nota hefðbundna hjólahjálma bæði á línuskautum og hjólabrettum. Á hlaupahjólum eru hefðbundnir hjólahjálmar notaðir. Hjálmar eru þó ekki fullnægjandi öryggisbúnaður. Nauðsynlegt er að hafa hlífar á olnbogum, úlnliðum og hnjám. Eins og með hjálma eiga hlífar að vera CE merktar til að tryggja að um viðurkenndan öryggisbúnað sé að ræða. Hlífarnar eiga að passa vel, vera þægilegar og sitja rétt. Á hlaupahjólum er svo gott að hafa í huga að skór þurfa að vera stamir til að minnka líkur á að fólki renni af hjólinu.
 
Þeir sem eru á hlaupahjólum, línuskautum og hjólabrettum eiga að fara eftir umferðarreglum fyrir gangandi vegfarendur. Þegar farið erum gangstéttar og göngustíga á að halda sig hægra megin en taka fram úr vinstra megin. Vegfarendur á þessum farartækjum ber að taka fullt tillit til gangandi vegfarenda og víkja fyrir þeim.
 
Nauðsynlegt er að huga að viðhaldi. Fara skal yfir hjólabúnað reglulega, hreinsa hann og athuga slit á dekkjum. Á línuskautum er nauðsynlegt að huga að legum en þær geta auðveldlega skemmst sérstaklega ef sandur kemst í þær. Einnig er nauðsynlegt að bremsur séu í góðu lagi. Á hjólabrettum þarf að endurnýja sandpappírsplötuna þegar hún fer að slitna. Á hlaupahjólum er einnig nauðsynlegt að fylgjast með bremsum og hafa þær í lagi ásamt öxlum. Passa þarf að stýrið sé ávallt hert en það getur losnað þar sem það er hækkað og lækkað. Þrífa þarf svo flötina sem staðið er á, óhreinindi geta gert hana hála.
 
Það er því að mörgu að hyggja þegar börnin halda út í umferðina. Mikilvægast er að kenna þeim að haga sér í umferðinni og gera þeim grein fyrir þeim hættum sem þar leynast. Munum svo að við fullorðna fólkið erum fyrirmynd barnanna og ættum því alltaf að nota viðeigandi öryggisbúnað á hjólum, línuskautum, hlaupahjólum og hjólabrettum.
 
 
Höfundur: Hildur Tryggvadóttir Flóvenz, starfsmaður hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg