Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Sáttmáli um réttindi fatlaðra

Í gær samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna nýjan alþjóðasamning um réttindi fatlaðs fólks.  Þessi mannréttindasáttmáli markar tímamót í réttindabaráttu þeirra 650 milljóna manna sem búa við fötlun í heiminum.

Tilgangur samnings er að efla mannréttindi og persónufrelsi fatlaðs fólks og stuðla að virðingu fyrir manngildi þeirra.  Þó réttindi fatlaðra séu víða tryggð formlega er reyndin sú að fötluðu fólki er oft ýtt út á jaðar samfélagsins og því mismunað á mörgum sviðum.  Hinum nýja samningi er ætlað að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks í reynd. Samningurinn var unninn í nánu samstarfi við fatlaða og hagsmunasamtök þeirra og grundvallast á virðingu fyrir persónufrelsi einstaklingsins, banni við mismunun, þátttöku, aðgengi, virðingu fyrir fjölbreytileika samfélagsins og jafnrétti kynjanna. Samningurinn kveður, í 50 greinum, á um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi, aðgengi og þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu, rétt til menntunar og heilbrigðisþjónustu, atvinnuréttindi, félagslega þjónustu o.fl. en jafnframt er viðurkennt að viðhorfsbreyting sé nauðsynleg til þess að fatlaðir njóti sömu réttinda og aðrir.  Samkvæmt samningnum mun sérfræðinganefnd hafa eftirlit með því hvernig ríki uppfylla skyldur sínar. Valfrjáls bókun kveður á um kæruleið fyrir einstaklinga.

Nánar hér á síðu Sameinuðu þjóðanna