Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Forvarnardagurinn 2006

Fimmtudaginn 28. september nk. verður í fyrsta sinn haldinn forvarnardagur í grunnskólum landsins undir heitinu "Taktu Þátt!  Hvert ár skiptir máli."

Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði Forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.

Grundvöllur Forvarnardagsins eru niðurstöður vísindamanna við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík, sem hafa um árabil rannsakað lífshætti ungs fólks og áhættuhegðun ungemnna og hafa þær vakið alþjóðlega eftirtekt.  Niðurstöður rannsóknanna hafa leitt í ljós að þeir unglingar sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna.  Að sama skapi hafa rannsóknirnar sýnt að mun ólíklegra sé að ungmenni sem stundi íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf, falli fyrir fíkniefnum.  Í þriðja lagi sýna rannsóknirnar fram á þá staðreynd að því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegri er að þau hefi neyslu fíkniefna.

Heilræðin þrjú eru því:

  1. Samvera foreldra og barna skiptir máli
  2. Þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi skiptir máli
  3. Hvert ár sem unglingar sniðganga áfengi skiptir máli

Tveimur kennslustundum verður varið til verkefnisins 28. september. Skólarnir hafa fengið verkefni til að vinna með nemendum en það samanstendur af geisladisk og þemaverkefnum um forvarnir og gildi þeirra. Fulltrúar íþrótta- og frístundafélaga munu heimsækja alla 9. bekki grunnskóla landsins og stýra dagskrá í samvinnu við kennara og skólastjórnendur.  Nemendum verður skipt upp í umræðuhópa þar sem heilræðin verða rædd og að lokum verður niðurstöðum hópvinnunar og ábendingum nemenda skilað inn á heimasíðu verkefnisins.

Skilaboð með heilræðunum þremur verða send inn á hvert heimili í landinu.  Stefnt er að því að forvarnardagurinn verði árviss viðburður í framtíðinni.  Heimasíða verkefnisins er www.forvarnardagur.is.