Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Útvarpsréttarnefnd kanni hvort sjónvarpsstöðvar hafi brotið lög

Fréttatilkynning 17. janúar 2006
frá Lýðheilsustöð, talsmanni neytenda og umboðsmanni barna

Lýðheilsustöð, talsmaður neytenda og umboðsmaður barna hafa bréflega farið fram á það við útvarpsréttarnefnd að hún kanni formlega hvort íslenskar sjónvarpsstöðvar hafi brotið gegn tilgreindum ákvæðum útvarps- og áfengislaga með því að heimila

  1. birtingu bjórauglýsinga,
  2. kostun tiltekinna dagskrárliða af hálfu bjórframleiðenda og
  3. að áfengi og tengd vörumerki séu áberandi í ákveðnum dagskrárliðum
  4. eins og nánar er rakið í erindinu, dags. 10. janúar sl.

Í erindinu eru nefnd dæmi sem varða Ríkissjónvarpið, Sirkus, Skjá Einn og Stöð 2.

Í X. kafla útvarpslaga nr. 53/2000 eru fjórar tegundir viðurlaga sem unnt er að beita sjónvarpsstöðvar við ólíkum brotum gegn lögunum:

  • refsingar í formi fésekta (28. gr.),
  • stjórnvaldssektir (1. mgr. 30. gr.),
  • afturköllun útvarpsleyfis (31. gr.) og
  • áminning – sem undanfari hugsanlegra stjórnvaldssekta (5. mgr. 30. gr.) eða mögulegrar afturköllunar útvarpsleyfis (31. gr.)

Í erindinu fara Lýðheilsustöð, talsmaður neytenda og umboðsmaður barna fram á að útvarpsréttarnefnd beiti heimildum sínum til þess að kanna hvort bjórframleiðendur eða umboðsaðilar bjórtegunda greiði fyrir að vörur þeirra eða vörumerki séu kynnt í tengslum við tiltekna dagskrárliði eða í auglýsingatímum. Hafi sjónvarpsstöðvarnar brotið gegn útvarps- eða áfengislögum er þess farið á leit að útvarpsréttarnefnd beiti vægasta úrræðinu – áminningu - sem lög leyfa vegna brota á útvarpslögum, vegna þeirra dæma sem tilfærð eru í erindinu.

Sjá bréf Lýðheilsustöðvar, talsmanns neytenda og umboðsmanns barna, dags. 10. janúar sl. ásamt 3 fskj.

Nánari upplýsingar gefur Gísli Tryggvason,
talsmaður neytenda í síma 510 11 21 og GSM 897 33 14.