Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Börn í innkaupakerrum

Niðurstöður rannsóknar á heima- og frítímaslysum barna á aldrinum 0-4 ára sem komið höfðu á slysadeildina árið 2003 sýna að 5% barnanna, tæplega 80 börn, höfðu slasast í verslunum.  Einna alvarlegustu slysin sem verða í verslunum eru fallslys og þá flest vegna falls úr innkaupakerrum. Sum þessara slysa eru mjög alvarleg því flest börnin hljóta höfuðáverka.  Fyrir lítið barn að detta úr innkaupakerru niður á steingólf samsvarar því að fullorðinn detti ofan að bílskúr niður á steypta stétt.  Herdís Storgaard, verkefnisstjóri Árvekni hjá Lýðheilsustöð, vekur athygli á þessu í grein sem birt er á vefsvæði Lýðheilsustöðvar.  Í greininni tekur hún fram nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar foreldrar fara með börn sín að versla.

Hvað geta foreldrar gert til að koma í veg fyrir þessi slys?

  • Látið barnið alltaf sitja í þar til gerðu sæti.
  • Athugið að barn sem er þyngra en 15 kíló á ekki að sitja í innkaupakerru.
  • Börn eiga aldrei að sitja ofan í körfunni sjálfri.
  • Ekki má yfirgefa smábarn eitt augnablik í körfunni.
  • Veljið alltaf körfu sem er með belti fyrir barnið, ef hún er til.
  • Hægt er að nota venjulegt beisli, með smá breytingu, til að festa barnið í sætinu.
  • Þegar kerra er valin er mikilvægt að gæta þess að hjólin virki eðlilega.
  • Sé kerrunni ekið út á bílastæðið gætið þess þá að forðast holur í malbikinu.

Heimild: Herdís Storgaard: Börn í innkaupakerrum á vefsíðu Lýðheilsustöðvar.