19. maí 2011

16 ára stúlkur berjast fyrir bættu aðgengi að ávöxtum

Umboðsmanni barna barst eftirfarandi tölvuskeyti frá nokkrum 16 ára stúlkum og ákvað í samráði við þær að birta efni þess. Stúlkurnar vilja berjast fyrir því að einu sinni í viku verði settir upp ávaxtabarir í búðum .

Brýnt er að opinberir aðilar aðstoði börn og ungmenni við að koma skoðunum sínum á framfæri, sérstaklega þegar tilgangurinn er að bæta uppeldisaðstæður barna og samfélagið í heild. Umboðsmanni barna barst eftirfarandi tölvuskeyti frá nokkrum 16 ára stúlkum og ákvað í samráði við þær að birta efni þess hér:

Við erum fjórar stelpur í 1. bekk í Menntaskólanum á Akureyri og erum að gera verkefni sem heitir "Áhrif mín á samfélagið".

Við ætlum að berjast fyrir því að það verði settur upp ávaxtabar í búðum einu sinni í viku til að auka ávaxtaneyslu þjóðarinnar. Þar eiga að vera niðurskornir ávextir og ber sem hægt er að setja í plastdollur líkt og er á grænmetisbörum. Við viljum líka berjast fyrir því að það verði afsláttur á þessum ávaxtabörum líkt og er á nammi á laugardögum. Mjög mikilvægt er að hafa ávexti aðgengilega, svo hægt sé að taka nokkra bita af hverjum ávexti í stað þess að þurfa að kaupa heilan ávöxt og borða allan í einu. T.d. var þetta gert með nammi, í stað þess að þurfa að kaupa heilu pokana með aðeins einni tegund í er hægt að velja nokkrar tegundir í sama pokann. Í dag er neysla á nammi mikið meiri en ávaxtaneysla og hefur þetta bil verið að aukast með árunum. Við viljum snúa þessari þróun við.

Úr ávöxtum fáum við betri næringu heldur en úr nammi. Ávextir eru ekki jafn ávanabindandi og gefa manni fjölbreytt vítamín og trefjar sem eru nauðsynleg fyrir líkamann. Lýðheilsustöð hefur til dæmis verið mikið í því að senda út bæklinga til að hvetja fólk til þess að borða hollt, drekka vatn og hreyfa sig. Höfum við hins vegar tekið eftir því að t.d. í apótekum á Íslandi er oft mikið nammi við búðarkassa í stað þess að hafa eitthvað hollt eins og til dæmis ávexti.

Það er auðveldara fyrir eigendur verslana að halda uppi nammibar því nammi tekur langan tíma að renna út og er þar að auki ódýrara. Skapast hefur hefð fyrir því að fá sér bland í poka á laugardegi eða „nammidegi“. Nammi er mun meira auglýst og eru því freistingarnar meiri að fá sér það heldur en ávexti, því er nammið yfirleitt haft við búðarkassana í litríkum umbúðum. Við gerðum rannsókn í Samkaup Strax verslun og kom þar í ljós að ber eru mjög dýr, t.d. eitt kíló af jarðarberum kostar 1596 kr. og eitt kíló af bláberjum kostar 3912 kr. kg. á meðan eitt kíló af nammi kostar 1639 kr. Fannst okkur einnig athugavert að á „heilsubarnum“ þar sem eru seldar hnetur o.þ.h. kostar kílóið 2190 kr. kg.

Við viljum vekja athygli fólks á því hversu slæm þróunin er í þessum málum. Okkar fyrsta verk verður að senda greinar til fréttamiðla til að vekja upp umræður og ætlum við að safna undirskriftalista til stuðnings máls okkar. Einnig erum við með facebook group þar sem við höfum nú þegar hlotið miklar undirtektir. 

Við vonumst eftir stuðningi!

-Anna Karen, Ásdís Rós, Kata og Þórunn Nanna.

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica