11. mars 2011

10. bekkingar vilja afnema hverfaskiptingu í framhaldsskóla

Umboðsmaður barna fagnar öflugu framtaki 10. bekkinga í Laugalækjarskóla sem söfnuðu um þúsund undirskriftum jafnaldra sinna til að mótmæla hverfaskiptingu í framhaldsskólum. Undirskriftirnar voru afhentar Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, í gær.

Umboðsmaður barna fagnar öflugu framtaki 10. bekkinga í Laugalækjarskóla sem söfnuðu um þúsund undirskriftum jafnaldra sinna til að mótmæla hverfaskiptingu í framhaldsskólum. Undirskriftirnar voru afhentar Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, í gær. Um þetta er fjallað í frétt hér á www.visir.is.

Samkvæmt 12. gr. Barnasáttmálans eiga börn sem myndað geta eigin skoðanir rétt á að láta þær í ljós í öllum málum sem þau varða og þeim fullorðnu ber að taka réttmætt tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska. Í 13. gr. sáttmálans segir að börn eigi rétt á að tjá sig nema það brjóti gegn almennu siðgæði, skaði mannorð eða brjóti gegn réttindum annarra. Þar segir einnig að börn eigi rétt á að leita sér upplýsinga, taka við upplýsingum og koma þeim á framfæri.

Ástæða er til að undirstrika að hér er um rétt barna að ræða en ekki skyldu. Skylda hvílir aftur á móti á þeim fullorðnu að tryggja börnum raunveruleg tækifæri til að taka þátt í ákvarðanatöku á þeirra eigin forsendum. Stjórnvöldum, þ.á.m. sveitarstjórnum og skólayfirvöldum, ber að hlusta á skoðanir barna og virða þær. Þessi réttur nær til allra mála er varða börn á einn eða annan hátt.

Til að bæta aðstæður barna og þjónustu við þau er þátttaka þeirra sjálfra mikilvæg. Börn eru sjálf sérfræðingarnir í eigin lífi og því er mikilvægt að nýta einstaka sýn barnanna og þá þekkingu sem þau búa yfir. Þátttaka barna eykur þannig skilning fullorðinna á lífi og reynslu barna. Þátttaka barna er þeim einnig mikilvæg svo að þau nái að þroskast sem best og verði ábyrgir borgarar.

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica