Réttindi barna

Reglur um réttindi barna er að finna í Barnasáttmálanum og ýmsum öðrum íslenskum lögum.

Börn eru þeir einstaklingar sem ekki hafa náð 18 ára aldri. Börn eru ólögráða og njóta forsjár foreldra sinna. Foreldrum ber að sína börnum sínum virðingu og umhyggju. Þegar foreldrar taka mikilvægar ákvarðanir fyrir hönd barns eiga þeir að hlusta á skoðanir barnsins og taka tillit til þeirra í samræmi við aldur og þroska barnsins. Eftir því sem barn verður eldra eiga skoðanir þess að hafa meira vægi.

Réttindi

Dæmi um réttindi

  • Börn eiga rétt á því að umgangast báða foreldra sína, jafnvel þótt þeir búi ekki saman.
  • Foreldrum ber að vernda börn gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi. Foreldrar mega ekki beita börn sín ofbeldi.
  • Foreldrar eiga að sjá börnum fyrir húsnæði, fötum, mat, skólavörum og öðrum nauðsynjum.

Réttindi eftir aldri:

  • Skólaskylda hefst við 6 ára aldur.
  • 1. júní á því ári sem barn verður 10 ára má það fara eitt í sund. Það er þó á ábyrgð foreldra að senda ekki ósynt barn eitt í sund.
  • 12 ára barn á rétt á því að vera haft með í ráðum þegar veita þarf því læknismeðferð og hlusta ber á skoðanir yngri barna.
  • Unglingar á aldrinum 13 til 16 ára skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartíminn um tvær klukkustundir.
  • Unglingar á aldrinum 13 til 14 ára mega vinna létt störf í allt að 2 klst. á dag á starfstíma skóla en 7 klst. utan þess tíma. Þeir mega ekki vinna frá kl. 20 til kl. 06 á morgnana og eiga rétt á a.m.k. 14 klst. hvíld á sólarhring.
  • Þegar unglingur er orðinn 15 ára má hann taka próf á létt bifhjól svo sem skellinöðru.
  • 15 ára unglingur sem er fatlaður getur fengið ökuskírteini til að mega stjórna hægfara vélknúnum ökutækjum fyrir fatlaða.
  • Unglingar á aldrinum 15 til 17 ára mega vinna létt störf í allt að 2 klst. á dag ef þeir eru í skyldunámi en annars 8 klst. á dag. Þeir mega ekki vinna á milli kl. 22 á kvöldin til kl. 6 á morgnana. Unglingar á þessum aldri eiga rétt á a.m.k. 14 klst. hvíld á sólarhring ef þeir eru í skyldunámi en 12 klst. hvíld á sólarhring ef þeir eru ekki í skyldunámi.
  • Þegar unglingur nær 15 ára aldri verður hann sjálfstæður aðili barnaverndarmáls.
  • Unglingar verða sakhæfir 15 ára gamlir. Það þýðir að það má refsa þeim ef þeir fremja afbrot. Það má handtaka þá og úrskurða í gæsluvarðhald en þá þarf að tilkynna barnaverndarnefnd og foreldrum um það vegna þess að sérreglur gilda um unglinga til 18 ára aldurs.
  • Samkvæmt almennum hegningarlögum er refsivert að stunda kynlíf með einstaklingi sem er yngri en 15 ára. Þessari reglu er ekki ætlað að refsa fyrir kynlíf jafningja heldur fyrst og fremst að vernda börn og unglinga fyrir misnotkun þeirra sem eru eldri og vilja nýta sér þroska- og reynsluleysi barnanna.
  • Skólaskyldu lýkur við 16 ára aldur. Þeir sem hafa lokið grunnskólanámi eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla. Þeir ráða því sjálfir hvort þeir sækja um framhaldsskóla, fara að vinna eða gera eitthvað annað.
  • Sá sem er orðinn 16 ára getur hafið ökunám (æfingaakstur) og tekið próf á dráttarvél.
  • 16 ára unglingur getur ákveðið sjálfur hvort hann vill ganga í trúfélag eða segja sig úr því.
  • Við 16 ára aldur verða unglingar sjálfstæðir þjónustuþegar heilbrigðiskerfisins. Þeir geta því leitað til heilbrigðisstarfsfólks án samþykkis eða vitundar foreldra. Þeir eiga sjálfstæðan rétt á upplýsingum um ástand, meðferð og horfur þeirra.
  • Í byrjun þess árs sem unglingur verður 16 ára fær hann skattkort frá ríkisskattstjóra og ber að greiða skatt af launum sínum. Einnig er honum skylt að greiða iðgjald af tekjum sínum í lífeyrissjóð.
  • Sá sem orðinn er 17 ára getur tekið bílpróf eða próf á bifhjól. Sá sem hefur slíkt próf má aka torfærutækjum, svo sem vélsleðum, þríhjólum eða fjórhjólum.
  • Einstaklingar verða lögráða við 18 ára aldur og eru þá sjálfráða og fjárráða. 

Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica