Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Álitaefni um brottnám líffæra, 22. mál

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um álitaefni í tengslum við 22. mál um brottnám líffæra. Umsögn sína um þetta álitaefni veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 27. apríl 2018.

Skoða frumvarpið. 
Skoða feril málsins.

 

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Reykjavík, 27. apríl 2018

 

Efni: Frumvarp um brottnám líffæra - álitaefni

 

 

Með framangreindri breytingartillögu er gildissvið frumvarpsins útvíkkað þannig að það nái einnig til barna. Frumvarpið gerir þann fyrirvara við ætlað samþykki til líffæragjafa að ekki má nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings til að nota við læknismeðferð leggist nánasti vandamaður hins látna gegn því. Samkvæmt því myndu foreldrar barna eða forsjáraðilar þeirra hafa úrslitavald um mögulegar líffæragjafir barna.

Ljóst er að börn eru meðal þeirra sem geta þurft á líffæragjöf að halda og fram hefur komið í opinberri umræðu um þessi mál að verulegur skortur er á líffærum til ígræðslu fyrir börn sem eru lífshættulega veik eða búa við verulega skert lífsgæði vegna heilsufars eða sjúkdóma. Hér er því um mikilvæga siðferðilega hagsmuni að ræða.

Umboðsmaður barna styður breytingartillögu nefndarinnar en vill um leið árétta að nauðsynlegt er að fræða og upplýsa almenning, þ.m.t. börn, um mikilvægi og eðli líffæragjafa og framkvæmd þeirra. Jafnframt telur umboðsmaður nauðsynlegt að settar verði verklagsreglur um aðkomu heilbrigðisstarfsmanna að þessum málum og þá sérstaklega hvað varðar samskipti við aðstandendur og upplýsingagjöf til þeirra þar sem úrslitavald foreldra eða forsjáráðila er virt. Þá er rétt að benda á að ráðgjafahópur umboðsmanns barna hefur lýst yfir áhuga á að börn gefist kostur á að gerast líffæargjafar ef þau kjósa svo. Því leggur umboðsmaður barna áherslu á nauðsyn þess að það sé tekið til skoðunar hvort og þá með hvaða hætti er unnt að stuðla að því að börn fái möguleika til þess að lýsa yfir afstöðu sinni til líffæragjafa með formlegum hætti.

 

Virðingarfyllst,

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna