Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Tillaga til þingsályktunar um rétt barna til að vita um uppruna sinn, 74. mál.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um rétt barna til að vita um uppruna sinn, 74. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 16. mars 2018.

Skoða tillöguna. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Velferðarnefnd Alþingis

Reykjavík, 16. mars 2018

 

Efni:  Tillaga til þingsályktunar um rétt barna til að vita um uppruna sinn, 74. mál.

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 23. febrúar sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um framangreinda þingsályktunartillögu. 

Umboðsmaður barna styður þingsályktunartillöguna og tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í greinargerðinni um  mikilvægi þess að börn sem getin eru með tæknifrjóvgun og kynfrumugjöf hafi kost á að fá upplýsingar um uppruna sinn ef þau sækjast eftir því.

Í 7. gr. Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013, kemur fram að barn eigi eftir því sem unnt er rétt til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra. Einnig kemur fram í 8. gr. Barnasáttmálans að barn eigi rétt á að viðhalda því sem auðkennir það sem einstakling, en  það á einnig við um líffræðileg einkenni. Í því felst m.a. auðkenni sem fela í sér læknisfræði- og erfðafræðilegar upplýsingar um einstaklinga og ættingja, blóðtengsl og fleira. Mikil framþróun hefur orðið á sviði mannréttinda á undanförnum árum og verður að hafa í huga að túlkun þeirra réttinda sem kveðið er á um í Barnasáttmálanum eru í stöðugri þróun. Þær leiðir sem nú eru tækar til að eignast barn hafa sömuleiðis orðið fjölbreyttari og á undanförnum árum hefur tæknin verið notuð í auknum mæli í þeim tilgangi. 

Þegar frumvarp til laga um tæknifrjóvgun var lagt fram árið 1996 gerði embætti umboðsmanns barna athugasemd við 4. gr. laganna og taldi það ekki þjóna hagsmunum barna að kynfrumugjafi gæti óskað eftir nafnleynd. Lagt var til að ákvæðið yrði fellt á brott og réttur barns, sem getið er með gjafakynfrumu, til að vita uppruna sinn, yrði virtur og lögfestur. Afstaða embættisins hefur því ávallt verið skýr hvað varðar rétt barna til upplýsinga um líffræðilegan uppruna sinn.

Umboðsmaður barna ítrekar að hafa ber bestu hagsmuni barnsins að leiðarljósi þegar stjórnvöld gera ráðstafanir sem varða börn, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans. Í samræmi við framangreint telur umboðsmaður að réttur barna til að eiga þess kost að nálgast upplýsingar um líffræðilegan uppruna sinn vegi mun þyngra en réttur kynfrumugjafa til nafnleyndar.

 

 

Virðingarfyllst,

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna