Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Þingsályktun um bætta stjórnsýslu í umgengnismálum, 90. mál

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um bætta stjórnsýslu í umgengnismálum, 90. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 16. mars 2018.

Skoða tillöguna. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Velferðarnefnd Alþingis

Reykjavík, 16. mars 2018

 

 

Efni:Tillaga til þingsályktunar um bætta stjórnsýslu í umgengismálum, 90. mál.

 

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 26. febrúar sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um framangreinda tillögu til þingsályktunar.

Tillagan gerir ráð fyrir því að dómsmálaráðherra verði falið að vinna frumvarp sem leggi til tilteknar breytingar á lögum sem miði að því að bæta og stytta málsmeðferð í ákveðnum flokkum mála er varða umgengni, forsjá og framfærslu barns samkvæmt ákvæðum barnalaga. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram að átt sé við úrskurði sýslumanna um bráðabirgðaumgengni og dagsektir, tengingu meðlags við umgengni og fjölgun samþykktra umsókna um gjafsókn í forsjármálum. Umboðsmaður áréttar að í dómsmálaráðuneytinu er hafin vinna við endurskoðun barnalaga og annarra laga sem snúa að því að lögfesta ákvæði um heimild foreldra til þess að semja um skipta búsetu barns en auk þess á að endurskoða ákvæði barnalaga varðandi framfærslu barns og meðlag.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir að markmiðið sé að stuðla betur að því að tryggja réttindi og vernd barna í þeim málum sem um ræðir. Umboðsmaður barna tekur undir og fagnar þeirri áherslu. 

Að mati umboðsmanns barna er jafnframt þörf fyrir frekari úrbætur á þessu sviði sem miða að því að fyrirbyggja og draga úr ágreiningi foreldra um hagi barns. Afar brýnt er að foreldrar sem standa frammi fyrir skilnaði eða sambúðarslitum hafi aðgang að sérhæfðri ráðgjöf og stuðningi sem gerir þeim kleift að komast að sameiginlegri niðurstöðu og samkomulagi um ýmis atriði er varða hagi barns, með hag barnsins að leiðarljósi. Samskiptaörðugleikar og togstreita milli foreldra barns getur haft verulega neikvæð áhrif á líðan þess. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. Barnasáttmálans er aðildarríkjum skylt að veita foreldrum aðstoð til þess að sinna hlutverki sínu með fullnægjandi hætti og getur fjölskylduráðgjöf skipt þar sköpum. Fjölskyldumiðstöðin  í Reykjavík gegndi mikilvægu hlutverki í málum af þessum toga en umboðsmaður barna gagnrýndi harðlega ákvörðun sem tekin var um niðurlagningu hennar. Umboðsmaður barna telur afar mikilvægt að fjölskyldum standi til boða nauðsynleg aðstoð og stuðningur til þess að tryggja öllum börnum þroskavænlegar og stöðugar aðstæður.

Í þessu sambandi bendir umboðsmaður á sænsku löggjöfina um félagsþjónustu sveitarfélaga, socialtjänstlagen, en þar er kveðið á um skyldu sveitarfélaga til að tryggja að foreldrum sem standa frammi fyrir skilnaði eða sambúðarslitum, standi til boða svokallað samstarfssamtal, undir leiðsögn sérhæfðs aðila, sem miðar að því að gera foreldrum kleift að komast að samkomulagi um forsjá og búsetu barns, umgengni og ýmis atriði er varða framfærslu barns.

 

 

Virðingarfyllst,

 

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna