Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Þingsályktun um aðgengi að stafrænum smiðjum 236. mál

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um aðgengi að stafrænum smiðjum 236. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 23. mars 2018.

Skoða tillöguna. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

 

Reykjavík, 23. mars 2018

 

Efni: þingsályktunar um aðgengi að stafrænum smiðjum, 236. mál.

 

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 7. mars sl., þar sem óskað var eftir umsögn umboðsmanns barna um framangreinda tillögu til þingsályktunar.

Gerir tillagan ráð fyrir því að mennta- og menningarmálráðherra verði falið að vinna áætlun um uppbyggingu á stafrænum smiðjum með það að markmiði að allir framhaldsskólanemendur hafi að þeim aðgang. Þá gerir tillagan ráð fyrir því að mótuð verði kennslustefna fyrir grunn- og framhaldsskóla þar sem hugað verði að undirstöðum námsins. Enn fremur er gert ráð fyrir því að áætlunin verði fjármögnuð að fullu. Í greinargerð með tillögunni kemur einnig fram að tilgangurinn sé að gefa almenningi og nemendum tækifæri til þess að læra að nota nýja tækni, þróa hugmyndir og stofna sprotafyrirtæki. Kemur þar einnig fram að þó svo að tillagan miði sérstaklega að framhaldsskólanemum verði smiðjurnar einnig opnar nemendum í grunnskólum.

Ákvæði 29. gr. Barnasáttmálans, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, leggja þá skyldu á aðildarríki að beina menntun barns að því sem frekast er unnt persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu þess. Umboðsmaður barna fagnar því öllum tillögum sem miða að því að virkja hugmyndaauðgi og sköpunarkraft ungs fólks. Það sama á við um tillögur sem hafa það að markmiði að auka fjölbreytileika náms í grunn- og framhaldsskólum og fjölga tækifærum barna og ungmenna til þess að tileinka sér nýja hæfni og færni.

 

 

Virðingarfyllst,

 

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna