Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um almenn hegningarlög (bann við umskurði drengja), 114. mál

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um  frumvarp til laga um almenn hegningarlög (bann við umskurði drengja), 114. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 28. mars 2018.

Skoða frumvarpið. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis

Reykjavík, 28. mars 2018

 

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (bann við umskurði drengja), 114. mál.

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 7. mars sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um framangreint frumvarp.

Með frumvarpinu er lögð til sú breyting á ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, að bann verði lagt við umskurði drengja en um útvíkkun er að ræða á núgildandi banni við að fjarlægja kynfæri að hluta eða öllu leyti hjá stúlkum.

Á undanförnum árum hefur orðið mikil framþróun á sviði mannréttinda og ekki síst í málefnum barna. Barnasáttmálinn kveður á um mannréttindi barna sem eru sjálfstæð og óháð réttindum annarra. Börn eiga rétt á að segja sína skoðun í málum sem þau varða og fá stigvaxandi rétt til að hafa áhrif á eigið líf, sbr. 12. gr. Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013.

Umboðsmaður vísar jafnframt til sameiginlegrar yfirlýsingar umboðsmanna barna á Norðurlöndunum og sérfræðinga í barnalækningum frá 30. september 2013. Þar var sett fram það álit að umskurður drengja án læknisfræðilegra ástæðna brjóti gegn ákvæðum Barnasáttmálans. Í yfirlýsingunni er vísað til þess að Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hafi hvatt aðildarríki Sameinuðu þjóðanna til að stöðva inngrip sem eru skaðleg friðhelgi og heilbrigði barna, drengja jafnt sem stúlkna. Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að það sé grundvallaratriði að réttindi foreldra séu ekki ríkari en réttur barna til líkamlegrar friðhelgi. Það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang, jafnvel þó það takmarki rétt fullorðinna til að iðka trú sína eða halda í heiðri siði.

Gerir yfirlýsingin jafnframt grein fyrir því að umboðsmenn barna ásamt þeim sérfræðingum í barnalækningum sem rituðu undir hana vilji beita sér fyrir því að eingöngu verði heimilt að umskera drengi í þeim tilvikum þar sem drengur hefur náð þeim aldri og þroska að geta skilið nauðsynlegar læknisfræðilegar upplýsingar og hefur veitt samþykki sitt fyrir aðgerðinni. Loks óskuðu umboðsmenn og sérfræðingar eftir umræðu sem einkennist af gagnkvæmri virðingu, milli allra þeirra sem hlut eiga að máli, um hvernig unnt er að veita drengjum sjálfsákvörðunarrétt um framkvæmd umskurðar. 

Í yfirlýsingunni eru ekki settar fram tillögur um hvernig bann við umskurði skuli útfært en ekkert Norðurlandanna hefur í löggjöf innleitt slíkt bann. Mikil umræða hefur átt sér stað á Norðurlöndunum um mögulegt bann við umskurði drengja og hefur umboðsmaður barna í Noregi. gefið út að hann styðji framangreint frumvarp.

Í Svíþjóð eru í gildi sérlög um umskurð drengja og kemur þar fram að um þær aðgerðir gildi viðeigandi lög um heilbrigðisþjónustu. Lögin gera kröfu um að forsjáraðilar séu upplýstir af heilbrigðisstarfsmanni um hvað felst í slíkri aðgerð. Einnig á að upplýsa drenginn á sama hátt, í samræmi við aldur og þroska. Þá má ekki framkvæma aðgerð gegn vilja drengs. Þeir einir mega framkvæma umskurð sem eru læknar með starfsleyfi eða þeir sem hafa fengið sérstakt leyfi til þess að framkvæma umskurð sem veitt er af Inspektionen för vård och omsorg sem jafnframt fer með eftirlit með leyfishöfum. Nánar er svo kveðið á um framkvæmdina í reglum Socialstyrelsen. Framkvæmi einstaklingur umskurð án tilskilins leyfis varðar það sektum eða allt að sex mánaða fangelsisvist. Ákvörðun sænskra stjórnvalda um að heimila umskurði drengja að tilteknum skilyrðum uppfylltum byggir m.a. á skýrslu Socialstyrelsen um umskurð frá árinu 2007. Í skýrslunni kom fram að töluvert hlutfall af aðgerðum í Svíþjóð þar sem drengir eru umskornir fari fram utan heilbrigðisstofnana og að mörg dæmi séu um alvarlegar afleiðingar þess. Því taldi Socialstyrelsen nauðsynlegt að í löggjöf verði kveðið á um heimild til að framkvæma umskurði á drengjum í viðeigandi og öruggum aðstæðum til að tryggja vernd þeirra og velferð.

Með frumvarpinu er lagt til að 1. málsl. 218. gr. a. verði svohljóðandi: Hver sem með líkamsárás veldur tjóni á líkama eða heilsu barns eða konu með því að fjarlægja kynfæri að hluta eða öllu leyti skal sæta fangelsi allt að 6 árum. Umboðsmaður áréttar hér meginreglu íslensks réttar um skýrleika refsiheimilda en ekki er ljóst af frumvarpinu eða greinargerð með því hvort umrætt ákvæði eigi að taka eingöngu til foreldra barns sem taka ákvörðun um að láta umskera barn sitt eða einnig til þeirra sem framkvæma umskurð samkvæmt beiðni foreldra. Umboðsmaður telur brýnt að tekið sé til skoðunar hvort það að svipta barn umönnun og vernd foreldra sinna með þesusm hætti sé raunverulega til þess fallið að tryggja réttindi barna.

Með hliðsjón af öllu framangreindu áréttar umboðsmaður barna að brýnt er að stuðla að því að sjálfsákvörðunarréttur barna og réttur þeirra til andlegrar og líkamlegrar friðhelgi sé virtur í hvívetna og að gripið sé til viðeigandi ráðstafana til að tryggja þann rétt á öllum sviðum samfélagsins. Þá fagnar umboðsmaður þeirri miklu samfélagslegu umræðu sem framlagning frumvarpsins hefur stuðlað að um réttindi barna í íslensku samfélagi og það flókna samspil ýmissa réttinda sem á reynir í þessu samhengi. Sú mikilvæga og nauðsynlega umræða er þó enn á upphafsstigum og þarf tíma til að þroskast.

Loks er vert að geta þess að umboðsmaður barna hér á landi hefur gefið út álit sem varða líkamleg inngrip á börnum eins og aðgerðir á intersex börnum. Þar kemur fram skýr afstaða umboðsmanns um að ekki sé rétt að gera aðgerðir á kynfærum barna fyrr en þau hafa náð aldri og þroska til að taka upplýsta ákvörðun. Börn njóta réttar til mannlegrar reisnar og friðhelgi einkalífs og er sá réttur m.a. tryggður í 71. gr. stjórnarskrárinnar og 16. gr. Barnasáttmálans. Í þeim rétti felst einnig réttur til líkamlegrar friðhelgi. Í þessu samhengi er rétt að íhuga hvort æskilegt sé að fara þá leið að kveða á um bann við umskurði drengja með breytingu á almennum hegningarlögum eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Að mati umboðsmanns barna færi betur á því að slíkt yrði gert með setningu sérstakrar löggjafar um kynrænt sjálfræði, eins og fjallað er um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, sem myndi tryggja einstaklingum, börnum jafnt sem fullorðnum, rétt til líkamlegrar friðhelgi og sjálfræðis um breytingar á kynfærum og kyneinkennum.

  

Virðingarfyllst,

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna