Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um kosningar til sveitarstjórna (kosningaaldur), 190. mál.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaráætlun á sviði barnaverndar, 378. mál.  Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 3. maí 2017.

Skoða tillöguna. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis

 

Reykjavík, 19. maí 2017
UB:1705/4.1.1

 

Efni: Frumvarp til laga um kosningar til sveitarstjórna (kosningaaldur), 190. mál.

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 5. maí sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp

 

Í frumvarpinu er lagt til að börn öðlist kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum við 16 ára aldur. Lækkun kosningaaldursins hefur verið eitt af þeim málum sem umboðsmaður barna hefur barist fyrir á undanförnum árum. Vonar hann því innilega að frumvarpið verði samþykkt.

Börn eiga almennt sömu mannréttindi og fullorðnir. Börn hafa þó ekki notið allra stjórnmálalegra réttindi, þar á meðal kosningaréttar. Rökin fyrir því hafa verið þau að börn hafi ekki forsendurnar til þess að taka þátt í lýðræðislegum kosningum vegna þroska- og reynsluleysis. Á undanförnum árum hafa þó margir dregið þessi rök í efa og bent á að unglingar hafi almennt öðlast töluverða hæfni til þess að kynna sér stjórnmál og taka upplýstar ákvarðanir. Hafa því þó nokkur lönd stigið skref í þá átt að lækka kosningaaldur og virðist reynslan af því almennt vera góð.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, kallar á ný viðhorf til barna og leggur þá skyldu á íslenska ríkið að tryggja börnum stigvaxandi rétt til þess að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Kosningaréttur fyrir börn á aldrinum 16 til 18 ára myndi veita fjölda barna tækifæri til þess að hafa áhrif á nærumhverfi sitt með virkum hætti. Lækkun kosningaaldurs myndi ekki einungis vera til hagsbóta fyrir börn og valdeflandi fyrir þau, heldur myndi það hafa jákvæð áhrif á samfélagið í heild. Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu er dvínandi kosningaþátttaka ungs fólks vaxandi áhyggjuefni hér á landi. Lækkun kosningaaldurs er til þess fallinn að auka áhuga ungs fólks á lýðræðislegri þátttöku og gefa málefnum barna og ungmenna meira vægi í pólitískri stefnumótun og ákvarðanatöku.

Umboðsmaður barna telur vel við hæfi að byrja á að lækka kosningaaldurinn í sveitarstjórnarkosningum, enda annast sveitarfélög stóran hluta þeirrar þjónustu sem hafa bein áhrif á daglegt líf barna. Umboðsmaður barna hvetur þingmenn þó jafnframt til þess hefja undirbúning að breytingu á 33. gr. stjórnarskrár Íslands og lækka einnig almennan kosningaaldur.

Færa má ýmis rök fyrir því að skynsamlegt sé að miða kosningaaldur við 16 ára. Má í því sambandi benda á að 16 ára börn eru talin geta borið töluvert mikla ábyrgð samkvæmt íslenskum lögum. Sem dæmi má nefna að börn verða sakhæf 15 ára og byrja að borga tekjuskatt 16 ára. Á þessum aldri eru börn einnig að ljúka skyldunámi en samkvæmt 2. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 er markmið grunnskólans meðal annars að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi. Þá er einn af grunnþáttum menntunar samkvæmt aðalnámskrá mannréttindi og lýðræði. Er grunnskólinn því í lykilstöðu í því til þess þjálfa börn til þess að taka þátt í lýðræðissamfélagi og undirbúa þau undir kosningar. Umboðsmaður barna er þó opinn fyrir þeim möguleika að miða kosningarétt við enn yngri aldur og er það eitthvað sem áhugvert væri að skoða í framtíðinni.

Að lokum vill umboðsmaður barna benda á að þó að lækkum kosningaaldurs sé mikilvægt skref í þá átt að auka lýðræðislega þátttöku barna er jafnframt mikilvægt að stuðla að aukinni þátttöku barna á öllum aldri. Telur umboðsmaður því ástæðu til þess að breyta æskulýðslögum nr. 70/2007 og kveða þar skýrt á um að sveitarfélögum verði gert skylt að starfrækja ungmennaráð og setja þeim skýrar reglur. Samhliða því væri æskilegt að bæta ákvæði um ungmennaráð í sveitarstjórnarlög, þar sem fram kæmi að sveitarfstjórnum væri skylt að hafa samráð við ungmennaráð sveitarfélagsins í öllum málum sem varða börn og ungmenni með einum eða öðrum hætti.

 

 

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna