Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum (innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, stjórnsýsla og húsnæðismál), 439. mál

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum (innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, stjórnsýsla og húsnæðismál), 439. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 12. maí 2017.

Skoða tillöguna. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Velferðarnefnd Alþingis

Reykjavík, 12 maí 2017
UB:1705/4.1.1

 

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum (innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, stjórnsýsla og húsnæðismál), 439. mál.

 

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 3. maí sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp.

Vegna anna hefur umboðsmaður barna ekki haft tök á því að fara með ítarlegum hætti yfir frumvarpið. Umboðsmaður barna vill þó lýsa yfir ánægju sinni með það að verið sé að endurskoða lög um félagsþjónustu sveitarfélaga með hliðsjón af nýlega fullgiltum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Umboðsmaður barna fagnar því að í frumvarpinu sé lagt til að notendaráð verði starfandi í öllum sveitarfélögum og að samráð verði haft við notendur félagsþjónustunnar við ákvarðanatöku. Þó er mikilvægt að tryggja að slíkt samráð verði ekki einungis til málamynda. Þá væri full ástæða til þess að ítreka sérstaklega í ákvæðinu að börn eigi að vera hluti af notendaráðinu, í samræmi við rétt þeirra samkvæmt 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. sbr. lög nr. 19/2013. Má í því sambandi benda á að í 8. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir sérstöku öldungaráði sem skuli vera formlegur samráðsvettvangur um þjónustu við aldraða og þróun öldrunarmála. Umboðsmaður barna veltir fyrir sér hvort ekki sé þörf á sambærilegu ráði þegar kemur að þjónustu við börn.  Ljóst er að veruleg þörf er á að samræma betur þjónustu við börn í sveitarfélögum. Í frumvarpi til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar þjónustuþarfir er að finna ákvæði um samfellu í þjónustu við fötluð börn sem hafa þörf fyrir viðvarandi fjölþættum stuðningi. Umboðsmaður barna hefði hins vegar gjarnan viljað sjá almennt ákvæði um þjónustuteymi, ráðgjöf og samvinnu milli kerfa fyrir öll börn sem þurfa á þjónustu að halda.

Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði laganna um forvarnarstarf í unglingamálum, ráðgjöf og aðra þjónustu við unglinga falli brott, m.a. með vísan í það að barnaverndarlög og æskulýðslög hafi leyst þessa skyldu sveitarfélaga af hólmi. Vissulega virðast þessi ákvæði ekki hafa verið nægilega virk í framkvæmd. Umboðsmaður barna hefði þó frekar viljað sjá aukna áherslu á ráðgjöf og þjónustu við börn og ungmenni. Barnavernd hefur mikilvægt hlutverk þegar aðstæður barna á heimili eru ekki nægilega góðar eða börn stefna eigin velferð í hættu. Það er hins vegar reynsla umboðsmanns að börn hafi takmarkað aðgengi að almennri ráðgjöf hjá barnavernd. Væri því jákvætt að mati umboðsmanns að kveða skýrt á um það í lögum að börn og ungmenni geti leitað eftir ráðgjöf hjá félagsþjónustu sveitarfélaga, án tillits til samþykkis foreldra.  

Að lokum vill umboðsmaður barna leggja til að skylda sveitarfélaga til þess að bjóða upp á ókeypis fjölskylduráðgjöf verði áréttuð enn frekar í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þegar samskipti eru af einhverjum ástæðum erfið innan fjölskyldunnar getur það skapað mikla togstreitu í lífi barns og haft verulega neikvæð áhrif á líðan þess. Mörg af þeim erindum sem börn senda til umboðsmanns barna varða einmitt samskiptavanda innan fjölskyldunnar og í slíkum málum bendir umboðsmaður gjarnan á þann möguleika að fara í fjölskylduráðgjöf. Í sumum sveitarfélögum hefur verið í boði ókeypis fjölskylduráðgjöf en ekki öllum. Umboðsmaður barna hefur gagnrýnt þetta og bent á að börnum sé mismunað að þessu leyti eftir búsetu og efnahag foreldra.

 

 

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,

umboðsmaður barna