Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Umsögn um frumvarp til laga um íslenskan ríkisborgararétt (ríkisfangsleysi), 373. mál.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 160/2008, um íslenskan ríkisborgararétt (ríkisfangsleysi), 373. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 26. apríl 2017.

Skoða tillöguna. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis

Reykjavík, 26. apríl 2017
UB:1704/4.1.1

 

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um íslenskan ríkisborgararétt (ríkisfangsleysi), 373. mál.

Vísað er í tölvupóst frá nefndarsviði Alþingis, dags. 7. apríl sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um íslenskan ríkisborgararétt.

Öll börn eiga rétt á ríkisfangi samkvæmt 7. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. 19/2013 og er mikilvægt að tryggja þau réttindi án mismununar af nokkru tagi, sbr. 2. gr. sáttmálans. Er því afar ánægjulegt að lagðar séu til nokkrar breytingar sem miða að því að auka jafnræði barna þegar kemur að veitingu ríkisborgaréttar, svo sem að börn íslenskra karla njóti sama réttar til íslensks ríkisfangs og börn íslenskra kvenna og þegar kemur að ættleiðingu, sbr. 1. og 4. gr. frumvarpsins.

Umboðsmaður barna telur jákvætt að í c-lið 4. gr. sé lagt til að barn sem náð hafi 12 ára aldri skuli veita samþykki sitt til að fá íslenskan ríkisborgararétt. Í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans telur hann þó jafnframt mikilvægt að árétta í lögunum að yngri börn eigi einnig rétt á að tjá sig um slíka ákvörðun og að taka skuli réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska.

Umboðsmaður barna fagnar því að í drögunum er leitast við að koma til móts við ungt fólk sem búið hefur hér á landi frá unga aldri. Hann veltir þó fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að rýmka einnig heimild einstaklinga sem hafa komið til landsins sem fylgdarlaus börn í leit að alþjóðlegri vernd og miða við að þau geti fram til 21 árs aldurs óskað eftir því að fá íslenskan ríkisborgararétt. Í samræmi við það leggur umboðsmaður til að breyting verði gerð á orðalagi  2. mgr. 5. gr. þannig að tekið verði úr greininni  „áður en hann verður 18 ára“.  Þá verði miðað við að barn sem kemur til landsins þegar það er yngra en 18 ára og hafi fasta búsetu og dvalist hér á landi samfellt í þrjú ár hafi möguleika á að öðlast íslenskan ríkisborgararétt.

 

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna