Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 160/2008, um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga (endurgreiðsla vegna gleraugnakaupa barna), 215. mál.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 160/2008, um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga (endurgreiðsla vegna gleraugnakaupa barna), 215. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 19. apríl 2017.

Skoða tillöguna. 
Skoða feril málsins.

 

 

 Umsögn umboðsmanns barna

 

 Velferðarnefnd Alþingis

 

Reykjavík, 19. apríl 2017

UB: 1704/4.1.1

 

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 160/2008, um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga (endurgreiðsla vegna gleraugnakaupa barna), 215. mál.

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 6. apríl sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp.

Umboðsmaður barna vísar í fyrri umsögn embættisins, dagsetta 7. apríl 2016, vegna frumvarps sama efnis. Líkt og þar kemur fram fagnar umboðsmaður barna allri endurskoðun sem stefnir að því að veita börnum betri þjónustu. Umboðsmaður hefur lengi lagt ríka áherslu á að öll börn fái þau hjálpartæki og þá læknismeðferð sem þau þurfa, án tillits til efnahags foreldra þeirra. Best væri að öll börn ættu rétt á nauðsynlegum hjálpartækjum þeim að kostnaðarlausu. Að því sögðu fagnar umboðsmaður öllum breytingum sem miða að því að rýmka greiðsluþátttöku ríkisins við gleraugnakaup, enda eru gleraugu mikilvæg hjálpartæki fyrir þau börn sem þurfa á þeim að halda.

Umboðsmaður barna veltir þó fyrir sér hvort ekki væri hægt að ganga enn lengra. Þannig telur umboðsmaður mikilvægt að öllum börnum undir 18 ára aldri verði tryggð greiðsluþátttaka til gleraugnakaupa tvisvar á ári. Þannig leggur umboðsmaður áherslu á að öll börn njóti sama réttar án mismununar af nokkru tagi sbr. 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013.

Umboðsmaður barna vísar í þessu sambandi einnig til 24. gr. Barnasáttmálans. Þar kemur fram að aðildarríki sáttmálans viðurkenni rétt barns til að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja. Enn fremur má benda á að í 3. mgr. 23. gr. Barnasáttmálans er kveðið á um að leitast skuli við að veita börnum með sérstakar þarfir viðeigandi aðstoð þeim að kostnaðarlausu, þar á meðal heilbrigðisþjónustu.

Að lokum tekur umboðsmaður barna undir mikilvægi þess að sett verði ákvæði í reglugerð um uppfærslu eða endurskoðun fjárhæðarinnar vegna verðlagsbreytinga þannig að stuðningur hins opinbera við gleraugnakaup barna rýrni ekki í samræmi við verðbólguþróun.

 

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,

umboðsmaður barna